Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gaf ellefu pörum egg

17.03.2021 - 07:34
Mynd: RÚV / RÚV
Kona sem gaf ellefu pörum egg segir gott að hugsa til þess að hún hafi hjálpað þeim að eignast óskabörn. Hún mælir með því að fólk kynni sér hvað felst í að gefa kynfrumur sínar, það eigi ekki að vera neitt feimnismál.

Árið 2011 hafði Irma Þöll Huldudóttir eignast börnin sín þrjú. Hún fór í ófrjósemisaðgerð sem mistókst og ákvað í kjölfarið að hjálpa barnlausu fólki með því að gefa því egg. „Ég hef farið sex sinnum í eggheimtu og 11 hjón hafa fengið egg frá mér,“ segir Irma Þöll.

Hún fór í þessar sex eggheimtur á þriggja ára tímabili, en fyrir hverja og eina tók hún hormóna í 5 vikur. Hún segir margar ástæður fyrir ákvörðun sinni. „Það eru margir sem hafa til dæmis farið í krabbameinsmeðferð og geta ekki átt börn. Margir geta ekki átt börn, svo eru margir sem eiga auðvelt með það og hafa kannski ekki tök á að eiga þessi börn. Afhverju ekki að mætast bara á miðri leið?“ 

Fjögur paranna sem þáðu egg frá henni bjuggu hér á landi og sjö bjuggu víðs vegar um heiminn. Eggjagjöfin var rekjanleg sem þýðir að börnin fá að vita um uppruna sinn, svo framarlega sem foreldrarnir kjósa.

Hvernig tilhugsun er það að vita af 11 börnum út um allan heim sem urðu til vegna þess að þú gafst egg? „Mig langar til þess að vita hvort þau séu kannski fleiri þar sem ég gaf hjónunum fleiri en eitt egg.Mér þykir vænt um tilhugsunina. Og ég veit að þau eru í góðum höndum því þetta voru óskabörn.“ 

Irma Þöll segir eggjagjöfina ekkert feimnismál, börnin hennar hafi all tíð vitað af þessu og hún mælir með að konur kynni sér hvað felst í því að gefa egg. „Maður fær hlýtt í hjartað af því að vita að maður hafi kannski glatt einhverjar fjölskyldur. Ég myndi mæla með að fólk myndi allavegana kynna sér þetta og hugsa þetta aðeins lengra. Af því að það er greinilega langur biðlisti og mikil þörf á að fá fleiri eggjagjafa inn.“