Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimmtungur atvinnulausra býr við efnislegan skort

17.03.2021 - 20:39
Aldrei hafa jafnmargir verið í atvinnuleit á Íslandi og nú. Ríflega 21 þúsund manns eru án atvinnu og 4.300 manns eru í skertu starfshlutfalli. Atvinnuleysi kemur mjög illa niður á ákveðnum starsgreinum og það er ólíkt því sem gerðist í hruninu þegar atvinnuleysi dreifðist nokkuð jafnt um samfélagið. „Það varð gríðarlegt högg,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, í viðtali í Kastljósi í kvöld. 

„Fólk er mjög duglegt í atvinnuleit og við sjáum ekki annað en að fólk sé þvílíkt að leita að starfi alla daga og allar stundir,“ segir hún en bætir við að einhverjir hljóti að sjá fyrir sér að komast aftur í sitt fyrra starf um leið og rofar til í atvinnulífinu. 

Kristín Heba Gísladóttir, sem stýrir Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, tekur undir með Unni og segir að niðurstöður nýrrar rannsóknar sem Varða gerði fyrir ASÍ, BSRB og Eflingu leiði í ljós skýran vilja fólks til að komast aftur í vinnu. Hún segir að samtök launafólks hafi haft áhyggjur af andlegri heilsu atvinnulausra ekki síst vegna þess að fólki hafi reynst erfiðara að haldast í virkni í þessari kreppu en þeirri síðustu: „Þú getur ekki farið í virkniúrræði og sund á morgnanna,“ segir hún.

Þrátt fyrir að vanskil á leigu og lánum séu ekki sérlega mikil, 5 prósent hjá launafólki, 14 prósent hjá atvinnulausum og 9 prósent hjá innflytjendum, eiga margir erfitt með að ná endum saman: um helmingur atvinnulausra, rúmur fjórðungur kvenna í vinnu og fimmtungur karla í vinnu. 

Um það bil fjörutíu prósent atvinnulausra geta ekki mætt óvæntum útgjöldum og um fimmtungur þeirra býr við efnislegan skort. Fjörutíu prósent atvinnulausra mælist með slæma andlega heilsu. „Og það er skiljanlegt því fólk lokast svo mikið heima.“ segir Kristín Heba.

Í spilaranum hér að ofan má sjá viðtal Einars Þorsteinssonar við Unni Sverrisdóttur og Kristínu Hebu Gísladóttur í Kastljósi.