Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Færri skjálftar og smærri en stóra myndin óbreytt

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Skjálftavirknin á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga var minni í gær en undanfarna daga. Engu að síður mældust þar í kringum 1.900 skjálftar frá miðnætti til miðnættis, og þótt einungis fjórir þeirra hafi mælst yfir þremur að stærð er enn of snemmt að lesa nokkuð úr því, segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hann bendir á að virknin á svæðinu hafi verið nokkuð kaflaskipt allt frá upphafi hrinunnar, 24. febrúar og gjarnan gengið á með óreglulegum hviðum. Síðast í gærmorgun hafi ein slík hviða af minna og styttra taginu dunið yfir með þessum fjórum skjálftum yfir þremur, sem allir urðu á sama hálftímanum. Stóra myndin er hins vegar óbreytt, segir Einar Bessi, og fólk því við öllu búið.

Áfram þarf að gera ráð fyrir að gos geti brotist út

Í frétt á vef Veðurstofunnar kemur fram að áfram þurfi að gera ráð fyrir að gos geti brotist út og að líkurnar á að það gerist fari vaxandi eftir því sem núverandi ástand varir lengur. Líklegasti gosstaðurinn færist nú í norðaustur eftir kvikuganginum, sem myndast hefur undir Fagradalsfjalli. Í fréttinni segir að mesta skjálftavirknin hafi færst 4 - 5 kílómetra í norðaustur frá Nátthaga og sé nú um miðbik kvikugangsins við norðaustanvert Fagradalsfjall.