Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Baldur siglir ekki í dag

Baldur dreginn í höfn af dráttarbátnum Fönix þegar hann varð vélarvana í apríl 2021
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Breiðafjarðarferjan Baldur hefur ekki áætlanasiglingar í dag eins og var fyrst lagt upp með. Siglingar hafa legið niður síðan á fimmtudag þegar ferjan bilaði. Verið er að setja varahluti í Baldur og stefnt er að prufusiglingu síðar í dag. Ef allt gengur að óskum verður siglt samkvæmt áætlun á morgun, frá Stykkishólmi klukkan þrjú. Í skoðun er að sigla aukaferð fyrr um daginn, en það verður ákveðið með tilliti til færðar.

Bilunin var rakin til gamallar viðgerðar á túrbínu í vél ferjunnar, en hún var sett í Baldur þegar hann bilaði í fyrrasumar. Vegna þess var nýja túrbínan, sem var fengin til landsins um helgina, sérstaklega skoðuð með tilliti til forsögu hennar áður en hún var sett í ferjuna.