Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Átta dóu í skotárásum í Atlanta - ungur karl í haldi

epa09078995 Atlanta Police Department officers investigate the scene of a shooting outside a spa on Piedmont Road in Atlanta, Georgia, USA, 16 March 2021. At least eight people were reported dead following a string of shootings at three metro Atlanta massage parlors.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Talið er að 21 árs gamall hvítur karlmaður hafi myrt átta manns á þremur asískum heilsulindum - tveimur nudd- og baðstofum og einni ilmþerapíustofu - í og nærri Atlanta, höfuðborg Georgíuríkis í Bandaríkjunum í gærkvöld. Sex af átta fórnarlömbum morðingjans voru konur af asísku bergi brotnar.

Fyrsta árásin var gerð síðdegis í gær að staðartíma, um klukkan 21 að íslenskum tíma, í bænum Acworth skammt norður af Atlanta. Í frétt AFP segir að þar hafi morðinginn ráðist inn í asíska nuddstofu og skotið fjórar manneskjur til bana; tvær konur af asískum uppruna, eina hvíta konu og einn hvítan karlmann. Einn karlmaður af rómönskum ættum særðist í árásinni.

Nokkru síðar greindi lögreglan í Atlantaborg frá því að fjórar konur, allar af asísku bergi brotnar, hefðu fundist skotnar til ólífis í tveimur heilsulindum í borginni, bað-og nuddstofu og ilmþerapíustofu, sem báðar eru reknar af asískættuðum Bandaríkjamönnum.

Morðinginn að öllum líkindum 21 árs hvítur karlmaður 

Eftir viðtöl við sjónarvotta og skoðun á upptökum eftirlitsmyndavéla handtók lögregla hinn 21 árs gamla Robert Aaron Long og færðu hann fyrir dómara, grunaðan um að hafa framið allar árásirnar. AFP-fréttastofan hefur eftir talsmanni lögreglunnar í Atlanta að það sé „afar líklegt“ að Long hafi verið að verki í öllum tilfellum.

Grunur um hatursglæp

Rannsókn lögreglu beinist meðal annars að mögulegum ástæðum fyrir ódæðisverkinu, en hótunum og hatursglæpum gegn fyrirtækjum í eigu asískættaðra Bandaríkjamanna - og eigendum þeirra - hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum mánuðum.

Baráttusamtök gegn hatursglæpum og kynþáttahyggju fullyrða að áhersla Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, á að kalla kórónaveiruna sem veldur COVID-19 „Kínaveiruna“ í tíma og ótíma hafi kynt undir fordóma, ofbeldi og hatur á fólki af asískum uppruna.

Í sjónvarpsávarpi á fimmtudag fjallaði Joe Biden sérstaklega um og fordæmdi það sem hann kallaði „grimmdarlega hatursglæpi gegn asískættuðum Bandaríkjamönnum, sem hafa sætt árásum, ofsóknum og ásökunum og verið gerðir að blórabögglum. Það er illa gert. Það er óamerískt. Og því verður að linna,“ sagði forsetinn.