Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Alls 734 milljónir greiddar í viðspyrnustyrki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hátt í 600 umsóknir um viðspyrnustyrki bárust á fyrstu tveimur vikunum eftir að Skatturinn opnaði fyrir þær. Á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að undanfarna mánuði hafi tugir milljarða króna verið greiddir í stuðning gegnum úrræði ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Á fjórða þúsund í rekstri og tugþúsundir einstaklinga hafa nýtt sér margvíslegan stuðning ríkisins vegna áhrifa COVID-19 undanfarna mánuði. 

Alls hafa 734 milljónir króna verið greiddar í viðspyrnustyrki sem ætlað er að aðstoða fyrirtækjarekendur við að viðhalda lágmarksstarfsemi meðan áhrifa faraldursins gætir.

Auk þess er markmiðið að samfélagið verði viðbúið þegar heimurinn opnast að nýju að því er fram kemur á vef ráðuneytisins. Tæpir 2,2 milljarðar króna hafa verið greiddir í lokunarstyrki.

Þetta úrræði nær til þeirra tekjuskattskyldu fyrirtækja sem orðið hafa fyrir hið minnsta 60% tekjufalli frá því í nóvember 2020 til og með maí 2020. Sækja þarf um viðspyrnustyrk fyrir einn mánuð í senn á vef Skattsins.

Umsóknir um tekjufallsstyrki fyrir tímabilið frá apríl til október á síðasta ári eru ríflega 1.900 talsins en þeir eru ætlaðir þeim fyrirtækjum og einyrkjum sem urðu fyrir meira en 40% tekjufalli á þeim tíma.

Viðspyrnustyrkir eru beint framhald tekjufallsstyrkja en frá því í janúar hafa níu milljarðar króna verið greiddir í þess háttar styrk.

Flest þeirra fyrirtækja sem nýtt hafa sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins hafa á færri en tíu starfsmönnum að skipa.