Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vansvefta sofa síður hjá

16.03.2021 - 09:12
Mynd: Katie Salerno / Creative Commons
Ungt fólk, fætt eftir 1985, stundar mun minna kynlíf en kynslóðirnar á undan. Ýmsar rannsóknir styðja þessar niðurstöður að því er fram kom í máli Söndru Mjallar Jónsdóttur doktors í líf- og læknavísindum í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Meginástæða kynlífsskortsins er þreyta en svefn og góð hvíld eru mjög mikilvæg fyrir heilsu fólks. Að sögn Söndru hefur gleymst að segja takti samfélagsins frá því. 

Umræða um kynlíf er mun opnari nú á tímum en áður og meira aðgengi að getnaðarvörnum. Kröfur samfélagsins til fólks eru miklar og æ algengara að báðir einstaklingar í samböndum vinni úti 

Nú virðist fólk varla hafa tími til að hvíla sig, fólk setji hvíldina ekki í forgang, sem bitnar oft á kynlífinu og sambandinu.  

„Svefninn er ekki óvirkt ástand, hann er nýttur til að endurnýja líkamann, vinna og úr áreiti og búa til nauðsynleg efni sem við nýtum þegar við erum vakandi, þar á meðal hormón og kynhormón.“ 

Því meira sem karlmenn sofa því meira framleiða þeir af testósteróni. „Við ættum því að nýta okkur þennan hæfileika út hörgul.

Karlmenn sem sofa minna en sex og hálfan tíma á sólarhring eru með marktækt minna af sáðfrumum og fleiri eru gallaðar og þær eru minna sprækar. Því veldur svefnleysi ákveðnum frjósemisvandamálum.“ 

Hægt sé að snúa þessu við með því að bæta svefninn og þar með öðlast meira kynlíf fyrir vikið. „Svefnvandamál eru gríðarlega algeng hjá konum, þær eru tvöfalt líklegri en karlar að upplifa svefnvandamál.“

Það tengist hormónabreytingum á kynþroskaskeiðinu, meðgöngu og brjóstagjöf og breytingaskeiðinu. 

„Um 40% kvenna segja hafa skerta kynlöngun og stór hluti þeirra glímir við svefnvandamál. Í sumum tilfellum er hægt að bæta úr með því að taka svefninn í gegn.“ 

Hvað er til ráða?

Ýmis úrræði eru í boði, best að hunsa ekki vandamálið, maður þarf að breyta eigin hegðun og leita sér hjálpar. Tala við lækni eða sálfræðinga sem bjóða upp á svefnmeðferðir. Maður ætti að nota ávanabindandi svefnlyf með varúð. 

En hvaða áhrif hefur kynlíf á svefninn?

„Kynlíf getur svo sannarlega bætt svefninn. Ef fólk er kvíðið og stressað á kvöldið og á erfitt með að sofna þá virðist sem svefninn hafi gott af því að stunda kynlíf og sérstaklega að fá fullnægingu.“

Þá eigi fólk auðveldara með að sofna og sofi betur.  „Um 60% fólks segist sofa betur eftir að hafa stundað kynlíf. Dýrarannsóknir sýna þetta líka einkum varðandi karldýr. Eftir sáðlát eiga þau betra með að sofa og sofa betur.“

Sandra segist hafa lesið grein þar sem stungið var að skrifa upp á kynlíf sem meðferð við svefnleysi. „Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig það gengur í raunveruleikanum.“

Það er margt sem truflar, þarf að taka frá tíma fyrir kynlíf?

Já, bara eins og fólks skráir sig í tíma í ræktinni er hægt að taka frá tíma fyrir skemmtilega samveru. Það má líka setja sér markmið varðandi það að sofa betur.

Ég hvet fólk til að setja góðan svefn sem áramótaheit því þá líður fólki betur. Allar niðurstöður  sýna að þegar fólk nær að sofa aðeins meira þá eykst kynlöngun að sama skapi og þannig er hægt að rjúfa þennan vítahring.