Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þórólfur: Litlar líkur á að bólusettir beri smit

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Vottorð um bólusetningu við COVID-19 og vottorð um fyrri COVID-sýkingu verða tekin gild á landamærum Íslands, hvort sem þau eru upprunnin innan EES-svæðisins eða utan þess, uppfylli þau kröfur og leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Þeir sem framvísa slíkum vottorðum þurfa hvorki að fara í sýnatöku né sóttkví og heldur ekki að framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf á landamærum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að nýjar upplýsingar um bólusetningar hafi breytt hans skoðun á vottorðunum.

Hingað til hafa verið tekin gild bólusetningarvottorð gefin út í ríkjum Evrópusambandsins eða Evrópska efnahagssvæðisins með þeim bóluefnum sem hafa hlotið markaðsleyfi í Evrópu, að því gefnu að þau uppfylli skilyrði sóttvarnalæknis. 

Þegar núverandi reglur tóku gildi á landamærunum, um að farþegar þyrftu að framvísa neikvæðu COVID-vottorði og fara tvisvar í skimun, lagði Þórólfur til að fólk sem hefði verið bólusett yrði ekki undanþegið reglunum. Þórólfur segir í samtali við fréttastofu að ný gögn um að bólusettir séu mun ólíklegri til að vera smitberar en óbólusettir breyti stöðunni:

„Fyrir nokkru fannst mér ekki tímabært að taka gild vottorð frá útlöndum. Á þeim tíma var ekki vitað hvort bólusettir gætu borið með sér veiruna og smitað aðra þótt þeir myndu ekki veikjast sjálfir. Það hafa hins vegar komið upplýsingar síðan þá, til dæmis frá Ísrael þar sem hefur verið að bólusetja mjög mikið, sem sýna að líkurnar á að bólusettir beri með sér veiruna eru margfalt minni en meðal óbólusettra. Og á þeim grunni held ég að þetta geti alveg staðist. Mér finnst ekki rétt, ef það er verið að taka gild vottorð á annað borð, að það eigi að vera munur reglum fyrir ríki innan og utan EES,“ segir Þórólfur um aðgerðirnar sem heilbrigðisráðherra kynnti í dag.

Þér líst þá ekki illa á að bólusetningarvottorð séu tekin gild á landamærum?

„Nei, ég meina það er það sem við erum að stefna að og viljum sjá að þeir sem eru bólusettir fái ekki veiruna og beri hana ekki á milli, og að það sé það sem komi okkur út úr þessari krísu. En menn vilja gera það varlega og með öll gögn í höndunum um það. Og mér finnst að það eigi að gerast hægt og bítandi,“ segir hann.