Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur að yfirvöld átti sig á alvarleika málsins

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Sveitarfélög við Breiðafjörð kynntu áherslur sínar fyrir vegamálastjóra og samgönguráðherra á fundi í hádeginu. Þar var mikilvægi ferjunnar Baldurs undirstrikuð með tilliti til byggðar og atvinnuuppbyggingar. Áætlanir um að leggja niður ferjusiglingar um Breiðafjörð virðast farnar út af borðinu.

Búast við því að þörf á traustum ferjusiglingum muni aukast

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, segir að fundurinn hafi gengið vel. Á honum fóru Stykkishólmsbær og Vesturbyggð sameiginlega yfir mikilvægi ferjunnar. Bæði fyrir íbúa við og á Breiðafirði, atvinnulíf og ferðaþjónustu. Þá megi einungis búast við því að þörf á traustum ferjusiglingum yfir Breiðafjörð aukist í framtíðinni fremur en minnki með auknum umsvifum.

„Ég held að samgönguyfirvöld átti sig á alvarleika málsins og ég treysti því að þau munu vinna hörðum höndum að því að tryggja ferjusiglingar hér um lengri og skemmri tíma,“ segir Jakob.

Sveitarfélögin, líkt og fleiri, hafa löngum gagnrýnt það að í núverandi ferju sé einungis ein aðalvél. Þau kalla eftir stærri og nýrri ferju til að anna aukinni þörf samfélagsins.

Jakob segir að ráðherra hafi verið afdráttarlaus um að fyrri hugmyndum um að ferjusiglingum verði hætt hafi verið ýtt af borðinu. Unnið sé að framtíðarsýn til lengri tíma. Útboðsskilmálar og samningur við rekstraraðila ferjunnar muni taka mið af því.