Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Synd ef umræða um AstraZeneca vekur ugg að ósekju

16.03.2021 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Almannavarnir/Grímur Jón  - RÚV
Að minnsta kosti tólf ríki hafa stöðvað bólusetningu með bóluefni bresk-sænska lyfjaframleiðandans AstraZeneca eftir að fregnir bárust af hugsanlegum tengslum milli bóluefnisins og blóðtappa. Sóttvarnayfirvöld hér á landi hafa frestað bólusetningu tvö þúsund manns sem átti að fara fram á morgun en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir bóluefnið hafa reynst vel.

„Við erum að bíða eftir niðurstöðu frá Lyfjastofnun Evrópu sem eru að leggja á þetta mat og munu koma með yfirlýsingu á fimmtudaginn. Það þarf að hafa í huga að þetta er sjúkdómur sem sést og spurningin er bara hvort tíðnin eða áhættan sé meiri við bólusetningu heldur en gengur og gerist,“ segir hann. 

Engin merki um orsakatengsl

Lyfjastofnun Evrópu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa gefið út að engin merki séu um orsakatengsl og sagt óhætt að halda áfram að bólusetja. Öryggisnefnd Lyfjastofnunar Evrópu hefur bent á að þúsund manns fái blóðtappa árlega af hinum ýmsu ástæðum. Ekkert bendi til þess að hlutfallið sé hærra hjá fólki sem er bólusett en þeim sem eru það ekki.

Þórólfur segir að það væri mikil synd ef neikvæð umræða um bóluefni AstraZeneca yrði til þess að fólk vildi síður fá það. „Já, ég hef ákveðnar áhyggjur af því. Það hefur verið svolítið neikvæð umræða um þetta bóluefni að ósekju finnst mér. Því að þetta bóluefni er að virka mjög vel og maður sér það í Bretlandi þar sem er búið að bólusetja 11 milljónir manna með þessu bóluefni að það hefur þetta ekki verið tilkynnt og þetta virðist vera að virka bara ágætlega. Og ég held að þetta sé gott bóluefni,“ segir hann.