Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stórtækir peningafalsarar stöðvaðir

16.03.2021 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: Europol
Umfangsmikil peningafölsun hefur verið afhjúpuð í Búlgaríu. Karl og kona á miðjum aldri eru í haldi lögreglu, grunuð um að hafa prentað falsaðar evrur og dollara í prentsmiðju í einum af háskólum landsins. 

Hald var lagt á peningaseðla að andvirði 3,6 milljóna evra og 4 milljóna dollara. Fólkið hafði ekki áður komist í kast við lögin. Að sögn yfirmanns lögreglunnar bendir ekkert til þess að háskólayfirvöld hafi vitað af þessari ólöglegu iðju. Talið er að þau hafi verið hluti af glæpahring sem sá um að smygla fölsuðu seðlunum til Úkraínu og annarra Evrópuríkja.

Peningarnir voru prentaðir eftir að starfsdegi lauk í háskólanum og um helgar. Búlgarska lögreglan naut aðstoðar bandarísku leyniþjónustunnar við að koma upp um falsarana. 

Á vef Evrópulögreglunnar Europol kemur fram að í síðasta mánuði hafi hún tekið þátt í að stöðva peningaprentun í þremur prentsmiðjum í Búlgaríu. Þar voru einnig prentuð persónuskilríki og ökuskírteini. Til að auglýsa gæði framleiðslunnar notuðu glæpamennirnir búlgarskt vegabréf bandaríska leikarans Sylvesters Stallone.

Sama dag og sex manns voru handteknir sem stóðu að peninga- og skilríkjafölsuninni í Búlgaríu tóku lögreglumenn Europol þátt í að afhjúpa annan hóp sem prentaði evruseðla í Rúmeníu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV