Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Opna á sóttvarnahús við Kefavíkurflugvöll

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Nú geta ferðamenn frá löndum utan Schengensvæðisins komið til Íslands ef þeir eru með bólusetningarvottorð. Ákveðið hefur verið að koma á innra eftirliti á landamærunum og til stendur að opna sóttvarnahús á Keflavíkurflugvelli.

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að taka gild bólusetningarvottorð farþega sem koma til landsins frá ríkjum utan Schengen. Gagnrýnt hefur verið að lokað hafi verið á að fullbólusettir ferðamenn t.d. frá Bretlandi og Bandaríkjunum geti komið hingað til lands. 

„Þetta þýðir það í raun og veru að það þrönga bann sem hefur verið við tilefnislausum ferðum þriðjaríkisborgara til landsins. Þriðjaríkis borgarar eins og til dæmis Bretar og Bandaríkjamenn hafa ekki mátt koma til Íslands nema í brýnum erindagjörðum svo sem vegna vinnu og fjölskyldusameiningar. Með þessari breytingu þá er þetta bann við tilefnislausum ferðalögum afnumið gagnvart þeim sem eru með gilt bólusetningarvottorð og jafnvel mótefnavottorð fyrir sýkingu. Sóttvarnalæknir á svo eftir að skýra kröfurnar til þessara vottorða. Þetta er sem sagt opnun á lönd utan Schengen,“ segir Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli.

Sóttvarnahús opnað

Nú stendur til að sóttvarnahúsi verði komið upp á Keflavíkurflugvelli eða í nágrenni hans. Sigurgeir segir að lengi hafi verið bent á það að það vanti hús eða aðstöðu til að hýsa þá sem stöðvaðir hafi verið á landamærunum og vísað úr landi.

„Núna síðasta ári höfum við lent í því ítrekað að það er svo lítið framboð á flugi að fólk sem við erum að snúa burt frá landinu er vistað hjá okkur við aðstæður sem eru ekki nógu góðar. Núna með öllum covid aðgerðunum teljum við fulla ástæðu til að hafa sóttvarnahús á flugvellinum eða við hann í svipuðum stíl og hefur verið á Rauðarárstíg,“ segir Sigurgeir.

Skrýtið ár

Byrjað var að herða landamæravörslu vegna covid-19 í mars í fyrra eða fyrir einu ári. Síðan hefur reglum verið breytt á ýmsa vegu.
„Þetta hefur verið mjög skrýtið ár, þessir síðustu 12 mánuðir á flugvellinum. Eiginlega ný verkefni og nýjar útfærslur í hverri viku. Þetta hefur heilt yfir gengið mjög vel með góðu starfsfólki, bæði landamæravörðum og lögreglumönnum,“ segir Sigurgeir. Samstarfið við heilbrigðiskerfið, tölvufyrirtæki, Isavia, Landlækni og almannavarnir hafi gengið vel.“ Þetta hefur kennt okkur margt, gengið mjög vel og oft á tíðum verið skemmtilegt að atast í þessu þó að afleiðingar þeirra sem lenda í sjúkdómnum séu ekki góðar.“

Innra landamæraeftirlit

Nú hefur verið ákveðið að taka upp eftirlit hér á innri landamærum eins og reyndar hefur verið gert víða á Schengensvæðinu. Í fyrra var slíku eftirliti komið á sem stóð í 60 daga. Sigurgeir segir að þetta sé í raun ekki mikil breyting.

„Þetta þýðir bara það að við stöndum bara fastari fótum í þeim aðgerðum sem við erum að gera, ef við þurfum að vísa fólki frá eða beita einhverjum þvingunarúrræðum. Þetta þýðir alls ekki að landamærunum hafi verið lokað, þvert á móti.“