Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Öll Norðurlöndin búin að velja sér lag

Mynd: Birta Rán / RÚV

Öll Norðurlöndin búin að velja sér lag

16.03.2021 - 08:00

Höfundar

Í fyrsta sinn í 24 ár verður framlag Dana í Eurovision sungið á dönsku. Allar Norðurlandaþjóðirnar hafa nú valið lög til þátttöku í Eurovision.

Andreas Haukeland kemur fram undir listamannsnafninu TIX. Hann flytur framlag Noregs í Eurovision í ár, lagið Fallen Angel, eða Fallinn engill. 

TIX bar sigurorð af hljómsveitinni Keiino í undanúrslitunum heima fyrir, en Keiino flutti framlag Norðmanna síðast þegar keppnin var haldin árið 2019. 

28 lög komu upphaflega til greina í sænsku Melodifestivalen en Tusse stóð á endanum uppi sem öruggur sigurvegari með lagið um raddirnar, Voices. Tusse er 19 ára og kom sem flóttamaður frá Kongó til Svíþjóðar þegar hann var átta ára. Hann vann í Idol-söngkeppninni í Svíþjóð fyrir tveimur árum. 

Þeir Tusse og Tix taka þátt í fyrri undanúrslitunum í Rotterdam 18. maí. 

Danirnir Jesper Groth og Laurits Emanuel kalla sig Fyr & Flamme. Þeir tryggðu sér farmiðann til Rotterdam með lagi sínu Øve os på hinanden. Þetta verður í fyrsta sinn frá árinu 1997 sem framlag Dana verður sungið á dönsku. 

Rokksveitin Blind Channel kemur svo fram fyrir hönd Finnlands og flytur lag sitt Dark Side. Lagið hlaut yfirburða kosningu í undankeppninni í heimalandinu. 

Og svo eru það Daði Freyr og Gagnamagnið hans sem flytja lagið 10 Years fyrir hönd Íslands, en lagið var frumflutt um helgina. Íslendingar, Danir og Finnar syngja í seinni undanúrslitunum 20. maí.

Ísland er það eina í þessum fimm landa flokki sem aldrei hefur unnið keppnina. Allavega ekki enn þá.