Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Öflugra vegakerfi drægi verulega úr flutningskostnaði

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Með öflugra vegakerfi mætti draga úr verulega kostnaði og kolefnisfótspor mætti grynnka með hagkvæmari tækjum. Þetta er meðal þess semf fram kom í máli Inga Þórs Hermannssonar, forstöðumanns Samskipa innanlands á morgunfundi Vegagerðarinnar.  

Ingi Þór sagði vegablæðingar og þungatakarkanir vera hluta þess veruleika sem búið væri við.

Þungum bílum væri kennt um ástand vegakerfisins en þá spurði Ingi hvort vegirnir væru byggðir fyrir þörfina sem skapast við þá staðreynd að færa þarf vörur milli landshluta.

Ástand vega og tíðar þungatakmarkanir kalli eftir því að notast er við dýrari og eyðslufrekari búnað. Ný tækni við að knýja bílana áfram telur hann að muni draga úr áhyggjum af kolefnissporinu til lengri tíma litið.

„Hlutverk okkar er að þjónusta fyrirtæki og einstaklinga sem búa og starfa á landsbyggðinni,“ sagði Ingi Þór. Þar sé gerð rík krafa um áreiðanleika í þjónustunni, að hún sé í lagi alla daga.

Mikilvægt að vegakerfið styðji við kröfur um flutninga

„Framleiðsluvörur þurfa að komast til höfuðborgarinnar eða í flug, það eru víðtækari kröfur en sjóflutningar bjóða upp á. Því er mikilvægt að vegakerfið styðji við þessar kröfur.“

Önnur krafa sem verði æ háværari er sú að dregið verði úr kolefnisfótspori flutninga, það sé oft meira rætt en kostnaður við flutninginn. „Samskip rekur þéttriðið flutninganet sem reiðir sig á vegakerfið og þjónar dreifðum byggðum alla daga.“

Ingi Þór segir að gildandi reglur um þungatakmarkanir verði til þess að ívilna frekar stærri og þyngri flutningabílum. Slíkar takmarkanir hafi áhrif á starfsemina, þjónustuna, áreiðanleikann og tíðnina.

Hann segir offjárfestingar stundaðar til að takast á við þungatakmarkanir sem séu of algengar. Svo verði viðskiptavinir fyrir kostnaði sé ekki hægt að tryggja áreiðanleika í flutningum.

Ívilnanir sem í gildi eru fyrir tíu hjóla flutningabíla þegar kemur að takmörkunum á leyfilegri þyngd, geti tryggt stöðugleika í flutningum en styðji klárlega ekki við kröfur um að draga úr kolefnisfótspori.

Sóun innbyggð í kerfið

„Það er sóun í þessu öllu, samfélagslegt tap fylgir því að vera með stærri og meiri búnað en ella þyrfti og honum fylgir meiri eldsneytiseyðsla.“

Rök Vegagerðarinnar séu þau að vagnlest með leyfilegan 49 tonna þunga fái ákveðnar ívílnanir umfram lest sem er 44 tonn við þungatakmarkanir vegna fleiri hjóla.

Eftir því sem hjól eru fleiri undir bíl og vagni þeim mun meiri dreifing verði á þunga bílsins. Það byggi á mati Vegagerðarinnar á hvað vegir landsins geti þolað. 

Ingi segir í samtali við fréttastofu að alltaf sé einhver þörf fyrir flutningabíla með 49 tonna þunga, einkum við fisk- og gámaflutninga. Langur vegur sé þó frá að öll verkefni krefjist þeirrar þyngdar.

Bílar sem eyði meiri olíu geti farið um vegina á undanþágum frekar en hagkvæmari bílar sem menga minna og geta nýst allt árið. Það sé hagkvæmara að bæta við einum bíl af og til frekar og nota þá eyðslugrennri bíla sem skilja eftir grynnra kolefnisspor.

Í erindi Inga í morgun kom fram að flutningafyrirtæki þurfa að borga fullan þungaskatt þótt takmarkanir til að flytja vörur séu í gildi, fara þurfi fleiri ferðir eða fresta brottförum sem þýðir tvöfaldan kostnað.

Að sögn Inga hefur orðið tjón á bílum vegna blæðinga úr vegum, það kosti að þrífa þurfi tæki og búnað sem skapi ekki tekjur á meðan. Hann segir innviði þurfa að vera til staðar svo styðja megi við dreifðar byggðir landsins.

Þar verði til mikil verðmæti sem þurfi að  komast á markað og því skipti stöðugleiki í landflutningum miklu máli.