Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lækkun hámarkshraða í 30 í takt við vilja borgarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Reykjavíkurborg tekur undir meginrök breytingatillögu þingmannanna Andrésar Inga Jónssonar og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur við umferðalög þess efnis að hraðamörk í þéttbýli verði 30 kílómetrar á klukkustund.

Í umsögn Þorsteins R. Hermannssonar samgöngustjóra borgarinnar um frumvarpið segir að tillagan falli vel að markmiðum borgarinnar í umferðaröryggismálum, umhverfismálum og notkun mismunandi ferðamáta.

Æskilegt sé að hraði sé ákvarðaður út frá því hvaða hraða vegfarendur þoli án þess að hætta sé á þeir slasist alvarlega enda séu afleiðingar þess að aka á hjólandi eða gangandi á 50 kílómetra hraða mun meiri en sé hraðinn um 30.

Þorsteinn segir í umsögn sinni að hámarkshraði í um sextíu af hundraði gatna í Reykjavík sé nú 30 kílómetrar á klukkustund eða lægra. 

Jafnframt segir Þorsteinn að áfram megi nota hærri hámarkshraða þar sem aðstæður leyfi. Í frumvarpinu er lagt til að fella brott heimild til að leyfa hærri hámarksökuhraða utan þéttbýlis en 90 kílómetra á klukkustund.

Sömuleiðis skuli ökuhraði á bílastæðum lækkaður til samræmis við þau mörk sem sett eru á sambærilegum svæðum. Auk Reykjavíkurborgar hafa Landssamtök hjólreiðamanna og Strætó bs. sent inn umsagnir um frumvarpið.