Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kemur til greina að taka verksmiðjuna niður

16.03.2021 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikil óvissa er um niðurstöðu söluferlis kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Arion banki hefur fært niður bókfært virði verksmiðjunnar en til greina kemur að taka hana niður.

Stakksberg ehf, dótturfélag Arion Banka sem heldur utan um kísilverksmiðju United Silicon, er nú metið á 1,6 milljarð króna en virði þess var fært niður um rúman milljarð í fyrra og endurspeglar nú einungis verðmæti lóðar og tækjabúnaðar.

Arion Banki tók yfir kísilverksmiðjuna fyrir þremur árum eftir að félagið sem byggði hana fór í þrot. Síðan þá hefur verið unnið að sölu hennar og hefur það gengið hægar en búist var við.

„Undanfarin ár hafa verið nokkuð flókin á þeim mörkuðum sem verksmiðjan starfar á og hefur litast fyrst af áhrifum viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína og svo COVID beint í framhaldinu. Hefur þetta haft töluverð áhrif á markaðsverð afurða og eins fjárhagslega stöðu þeirra félaga sem starfa á þessum markaði og þar sem hefur hægt á söluferli,“ segir í skriflegu svari bankans við fyrirspurn fréttastofu.

Lágmarks starfsemi hefur verið í verksmiðjunni en félagið hefur haft eftirlit með henni og sinnt viðhaldi á innviðum. Þá er unnið að breytingum í samræmi við umhverfismat Umhverfisstofnunar. „Mikil vinna hefur farið í að koma til móts við þær athugasemdir sem borist hafa og allt kapp lagt á að ef að sölu verður þá miðist framkvæmdaáætlun við það að verksmiðjan starfi í samræmi við umhverfismat,“ segir í svarinu.

Þá kemur fram að niðurstaða söluferlisins skýrist væntanlega á næstu misserum. „Samhliða söluferli er í gangi skoðun á öðrum möguleikum sem bæði felast þá í annars konar notum fyrir þá innviði sem þarna eru til staðar en einnig þeim möguleika að taka niður verksmiðjuna.“