Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íslendingar vinna minna og upplifa síður skort

16.03.2021 - 08:32
Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - Burst
Vinnuvikan hefur styst allverulega hjá Íslendingum undanfarin ár og er það til marks um að Íslendingar hafi í ríkari mæli náð jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þeim fækkar sem upplifa skort.

Þetta kemur fram í velsældarvísum sem Hagstofan birtir en þeim er ætlað að gefa heildarmynd af hagsæld og lífsgæðum landsmanna.

Þar kemur meðal annars fram að vinnuvikan hefur styst mjög á undanförnum árum. Löng vinnuvika er miðuð við 49 klukkustundir eða meira og árið 2003 unnu 30 prósent Íslendinga langa vinnuviku. Þetta hlutfall er nú komið niður í 14 prósent. Munar þar mestu að karlmenn hafa dregið úr vinnu. Nærri helmingur karlmanna vann langa vinnuviku fyrir réttum tveimur áratugum en hlutfallið nú er komið niður í 21 prósent.

Dregur verulega úr skorti

Þá kemur fram að árið 2018 bjuggu 2,9 prósent Íslendinga við skort á félagslegum og efnislegum gæðum. Þetta er mun lægra hlutfall en árið 2014 þegar nærri 6 prósent Íslendinga bjuggu við skort. Þeir eru taldir búa við félags- og efnislegan skort sem ekki hafa efni á fimm af þrettán atriðum er varða persónuleg og heimilistengd útgjöld, svo sem getu til að bregðast við óvæntum útgjöldum, sinna tómstundum, fara í frí og skipta út húsgögnum svo eitthvað sé nefnt. Enn á eftir að koma í ljós hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn hefur á þennan tiltekna lið velsældarvísisins.

Magnús Geir Eyjólfsson