Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísland ljóstengt: 180 milljónir í lokaáfanga

Lagning ljósleiðara yfir kjöl
 Mynd: Aðsend mynd
Hafinn er lokaáfangi í átakinu Ísland ljóstengt þar sem þrettán sveitarfélögum gefst kostur á stuðningi til ljósleiðaravæðingar. Formaður Fjarskiptasjóðs segir að nú sé meðal annars horft til svæða þar sem hingað til hefur þótt of dýrt að leggja ljósleiðara.

Verkefnið Ísland ljóstengt hófst árið 2016 og er skilgreint sem tímabundið átak stjórnvalda við að byggja upp ljósleiðara í dreifbýli utan markaðssvæða.

Gátu styrkt öll sveitarfélög sem sóttu um 

Í þessum lokaáfanga standa þrettán sveitarfélögum til boða 180 milljónir króna úr Fjarskiptasjóði. Stuðningurinn er háður mótframlagi sveitarfélaganna og hafa þau frest til 17. mars til að ákveða þátttöku. „Og sérstaklega ánægjulegt að geta orðið við nánast öllum óskum upp á ákveðinn styrk, þó þau fái kannski ekki ítrustu óskir. Allavega getum við boðið þeim upp á ágætis styrki sem ég á nú von á að þau muni þiggja,“ segir Páll Jóhann Pálsson, formaður Fjarskiptasjóðs.

Nú sé komið að svæðum sem hafi verið aftar í röðinni

Í þessarri úthlutun sé horft til landsvæða sem ekki hafa áður verið inni í myndinni þar sem hingað til hafi verið valin til samstarfs sveitarfélög sem hafa getað tengt sem flest heimili fyrir þann styrk sem er í boði. „Vel stæðari sveitarfélög og þau sem voru með ódýrari tengingar, eðli málsins samkvæmt þá voru þau á undan í röðinni. Þannig að núna í lokaúthlutun þá eru þetta náttúrulega færri staðir en dýrari staðir.“ Þannig fær Árneshreppur hæstu styrki eða 46,5 milljónir, Húnaþing vestra fær 33,5 milljónir, Skaftárhreppur fær nú styrki og veittur er styrkur til að leggja ljósleiðara til Hríseyjar svo dæmi séu tekin.