Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Halldóra og Björn Leví fara fyrir Pírötum í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framboðslistar Pírata í Reykjavíkurkjördæmunum báðum liggja nú fyrir eftir sameiginlegt prófkjör. Þingmennirnir Björn Leví Gunnarsson og Halldóra Mogensen fara fyrir hvoru kjördæmi, Halldóra í því nyrðra en Björn Leví í því syðra.

Í tilkynningu frá Pírötum kemur fram að frambjóðendur hafi skipt sér milli kjördæmanna í samræmi við árangur í prófkjörinu og eigin árangur.

Í Reykjavík suður er Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir lögmaður í öðru sæti og Halldór Auðar Svansson fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata í því þriðja.

Andrés Ingi Jónsson, sem kjörinn var á þing fyrir Vinstri græna 2017 en gekk nýverið í raðir Pírata, er í öðru sæti í Reykjavíkurkjördæmis norður og Lenya Rún Taha Karim laganemi í þriðja sæti.

Reykjavíkurkjördæmin voru búin til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000 og fyrst kosið eftir henni í Alþingiskosningum þremur árum síðar. Hvort kjördæmi hefur á ellefu þingmönnum að skipa, þar af tveimur jöfnunarmönnum.