Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hærri þröskuldur fyrir nauðungarvistanir á Íslandi

16.03.2021 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - rúv
Almennt er auðveldara að fá fólk með fíknivanda eða geðrænan vanda nauðungarvistað í nágrannalöndum okkar en hér á landi. Þetta segir geðlæknir á sjúkrahúsinu Vogi. Hann segir ekki einsdæmi að fólk með fíknivanda og geðræn vandamál mæti úrræðaleysi í kerfinu.

Kristín Helgadóttir greindi í fréttum RÚV um helgina frá stöðu sonar síns, en langvarandi fíkniefnaneysla hans hefur leitt til geðrofa og ranghugmynda. Maðurinn hefur lengi verið heimilislaus og fær ekki lengur inni í gistiskýlinu sökum ástands síns.

Málið ekki einsdæmi

Víðir Sigrúnarson, geðlæknir og yfirlæknir á Vogi, segir málið því miður ekki einsdæmi.

„Ég þekki til fleiri fjölskyldna sem eiga mjög veika einstaklinga sem hafa lítið innsæi og lítinn vilja til að fá meðferð. Þetta er ekki einstakt. Þetta er bara svo ótrúlega flókið og erfitt. Og málin geta þróast svona án þess að nokkur vilji það. En auðvitað ætti að vera þjónusta við þetta fólk og einhver sem segir, nú er komið á þann stað að það þarf að grípa til úrræða,“ segir hann.

Úrræðin til staðar en erfitt að beita þeim 

Kristín lýsti í viðtalinu að fjölskyldan væri algjörlega ráðalaus. Hún sagðist ekki geta svipt hann sjálfræði og komið honum í skjól, þar sem hann vildi það ekki sjálfur á þessum tímapunkti. Víðir segir að úrræðin séu til staðar, en það sé aftur á móti oft erfitt að beita þeim.

„Það er hærri þröskuldur hér á Íslandi heldur en annars staðar við að fara í úrræðin þar sem við tökum ákvörðunarréttinn af einstaklingum. Það er mun hærri þröskuldur hér. Við hér á Íslandi eru mun meira til baka með þetta en til dæmis hin Norðurlöndin. Þetta er líka réttindamál, við megum ekki gleyma því. Þarna er raunveruleikinn svolítið að mæta hugsjónum um frelsi einstaklingsins,“ segir Víðir. 

Óttin við að einhver geri eitthvað ekki nóg

Fjölskyldan óttast að ástand mannsins sé svo slæmt að hann geti skaðað aðra, þar sem hann gangi oft um með hníf. Víðir segir mál sem þessi afar snúin.

„Það að meta hvort einhver sé hættulegur eða ekki er bara ótrúlega erfitt. Ef við förum að nota það viðmið þá gætum við þurft að loka ansi marga inni eða nauðungarvista ansi marga. Þannig að óttinn við að einhver geri eitthvað er ekki alveg nóg.“ 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV