Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Grindvíkingar geti sett sig í spor fólks með kæfisvefn

16.03.2021 - 19:09
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Jarðskjálftar geta raskað svefni fólks svo um munar, jafnvel þótt það vakni ekki við þá. Þetta sýna svefnmælingar. Skjálftarnir geta líka ýtt undir martraðir. Sérfræðingur í svefnrannsóknum segir að Grindvíkingar geti kannski sett sig í spor fólks sem glímir við kæfisvefn. 

Skjálftinn olli skyndilegri breytingu á heilariti

„Sofandi er ég lifandi jarðskjálftamælir.“ Svona komst Halla Helgadóttir, sálfræðingur, að orði á Facebook. Aðfaranótt síðasta miðvikudags prófaði hún svefnmælingatæki frá íslenska fyrirtækinu Nox Medical. Eftir nóttina skoðaði hún ritið og sá að klukkan 03:14 hafði púlsinn rokið upp. Orsakavaldurinn var jarðskjálfti 5,1 að stærð en sjálf mundi Halla ekkert eftir honum. 

„Við sjáum á heilaritinu að hún er sofandi, svo verður mjög skyndileg breyting á heilaritinu, sem bendir til þess að hún fari í ástand sem heitir örvaka. Það er þannig að heilinn tekur við sér í smá stund, Halla verður ekkert vör við þetta en þetta hefur áhrif á svefninn hennar, svo sér maður greinilega hvernig púlsinn rýkur upp,“ segir Jón Skírnir Ágústsson, rannsóknastjóri hjá Nox Medical. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Jón Skírnir Ágústsson.

Truflar svefn

Fólk hrekkur kannski ítrekað upp við skjálfta, í nokkrar sekúndur í senn, og man svo ekkert eftir því næsta dag. Erna Sif Arnardóttir, lektor og forstöðumaður Svefnseturs Háskólans í Reykjavík, segir að skjálftarnir geti truflað svefngæði fólks. „Ef fólk vaknar þreyttara en það er vant getur vel verið að það sé út af jarðskjálftunum.“ 

Fékk eldgossmartröð

Hún segir að fólk með kæfisvefn fái líka að kenna á svona örvökum. „Það er kannski að vakna 50 sinnum á klukkutíma út af öndunarstoppi en það man ekki eftir því næsta morgun, það telur sig hafa sofið heila nótt.“ Fólk missi oft djúpsvefn og draumsvefn, sem er mesti gæða svefninn, og sofi því lausar en það ætti að gera. Skjálftarnir geta haft víðtækari áhrif, fólk sem er kvíðið eða órólegt vegna þeirra getur átt erfiðara með að festa svefn. „Svo er það líka að fólk getur verið að upplifa martraðir, dreymir jarðskjálfta eða einhverjar hamfarir vegna skjálftanna, mig dreymdi til dæmis eldgos í nótt, æsispennandi draumur,“ segir Erna Sif og viðurkennir að draumurinn hafi kannski ekki beint verið þægilegur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Nox Medical framleiðir svefnmæla sem nýtast innan heilbrigðiskerfisins, til dæmis við greiningu á kæfisvefni.

 

Safnar gögnum um áhrif jarðskjálfta á svefn

Það er óljóst hversu stórir skjálftarnir þurfa að vera til að raska svefni fólks og almennt lítið til af rannsóknum á áhrifum jarðskjálfta á svefn. Erna Sif nýtir því tækifærið nú til að afla gagna. Starfsfólk og nemar Svefnseturs HR hafa síðustu vikur borið snjallúr og hún hefur greint svipuð viðbrögð hjá þeim og sáust í svefnriti Höllu. „Við sjáum líka viðbrögð að degi til hjá fólki sem segist ekki kippa sér upp við skjálftana, púlsinn segir annað,“ útskýrir Erna. Það sé líkamanum einfaldlega eðlislægt að bregðast við svona áreiti. Hún segir að það væri forvitnilegt að fá sjálfboðaliða í Grindavík til að taka þátt í gagnaöfluninni, fólk sem væri til í að sofa með svefnmæli.

Langvarandi svefnleysi tekur sinn toll

Nú eru tæpar þrjár vikur frá því skjálftahrinan hófst á Reykjanesskaga og margir orðnir langþreyttir. Erna segir langvarandi svefnsleysi hafa áhrif á andlega líðan og ýmsa líkamsstarfsemi. Fólk verður þreyttara, en líka svengra og pirraðra, sækir í óhollari mat og blóðsykurinn getur hækkað. „Fólk getur kannski sett sig aðeins í spor þeirra sem eru með svefnleysi eða kæfisvefn, sem er gríðarlegur fjöldi á heimsvísu, hvernig svefngæðin þeirra eru dagsdaglega.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV