Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gauti vill fara fyrir sjálfstæðismönnum í Norðaustur

Mynd með færslu
Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri í Djúpavogi. Mynd: Djúpavogshreppur - RÚV
Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, tilkynnti á Facebook síðu sinni í morgun að hann gefi kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður flokksins í kjördæminu, tilkynnti að hann sæktist eftir efsta sætinu síðastliðinn laugardag. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hyggst hverfa af þingi en hann fór fyrir lista sjálfstæðismanna í kosningunum 2017.

Gauti segir í yfirlýsingu sinni að markmið flokksins sé að ná þremur af þingsætum kjördæmisins í kosningunum í haust. Þingmenn kjördæmisins eru tíu, níu kjördæmakjörnir og einn jöfnunarmaður.

Kjördæmið var búið til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000, með sameiningu kjördæmanna Norðurlands eystra og Austurlands, og fyrst kosið samkvæmt þeirri skipan í Alþingiskosningum 2003.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk tvo menn kjörna í kosningunum 2017 og 20,3% atkvæða.