Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bólusettir utan Schengen mega koma til landsins

16.03.2021 - 11:39
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Þeir sem eru bólusettir og búsettir utan Schengen-svæðisins mega koma til landsins, framvísi þeir gildu vottorði um slíkt. Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun. Sóttvarnalæknir hefur sagt óráðlegt að losa bólusetta einstaklinga undan sóttvarnaráðstöfunum á landamærunum.

Áslaug segir að einhver lönd hafi stigið svipuð skref eins og Kýpur. „Og við eigum að gera þetta líka, að fá hingað fólk sem er bólusett eða mótefni og njóta Íslands með okkur.“

Breytingin gerir það að verkum að ferðamenn frá löndum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi getu nú framvísað vottorði um bólusetningu sem undanþegur þá frá sóttvarnaaðgerðum.

Hún segir að sömu viðurlög muni gilda um þessa ferðamenn og þá sem koma frá löndum Evrópusambandsins ef þeir framvísa fölsuðum vottorðum.  Sekt við slíku getur numið hundrað þúsund krónum.

Hún segir að það liggi tækifæri hjá löndum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum sem séu komin lengra í sinni bólusetningu en mörg lönd í Evrópu. 

Sóttvarnalæknir hefur haft sínar efasemdir um ágæti þess að framvísa bólusetningavottorðum.  Hann sagði í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra um miðjan febrúar að bíða þyrfti eftir niðurstöðum rannsóknar á áhrifum bólusetningar á dreifingu veirunnar.

„Ekkert land í Evrópu hefur enn sem komið er lögfest þetta fyrirkomulag og í nýlegum tilmælum Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) var mælst til þess að bólusetningavottorð yrðu ekki notuð til að undanskilja einstaklinga frá aðgerðum á landamærum vegna COVID-19, “ sagði Þórólfur í minnisblaði sínu. 

Þegar núverandi reglur um neikvætt COVID-vottorð og tvöfalda skimun voru settar lagði hann til að fólk sem hefði verið bólusett væri ekki undanþegið.  Ráðherra féllst ekki á þá tillögu og taldi hana þarfnast frekari skoðunar.

Í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra fyrir helgi lagði hann til að bólusetningavottorð og vottorð um fyrri COVID-sýkingu yrðu tekin gild, bæði frá ferðamönnum innan EES-svæðisins og utan. Gera verði sömu kröfur til allra vottorða.

Áslaug var spurð að því hvort ríkisstjórnin væri þarna að bregðast við þrýstingu frá ferðaþjónustunni. „Við heilbrigðisráðherra vorum sammála um þetta, að taka sömu vottorð gild, sama hvort það sé frá Evrópu eða utan.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV