Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áslaug Arna ætlar ekki að aflétta trúnaði

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Umboðsmaður Alþingis hefur ekki ákveðið hvort hann taki til skoðunar símtöl Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, og Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á aðfangadag.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur fjallað um símtölin síðustu vikur og meðal annars kallað ráðherra og lögreglustjóra á sinn fund til að gera grein fyrir innihaldi símtalanna. Þau fjölluðu um upplýsingagjöf lögreglu í tengslum við aðgerðir í Ásmundarsal að kvöldi Þorláksmessu þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var viðstaddur.

Nefndin gerði hlé á umfjöllun sinni í síðustu viku og gaf þar með umboðsmanni færi á að hefja frumkvæðisathugun á málinu en þar fengust þau svör að ekkert lægi fyrir um ákvörðun

Var í lófa lagið að halda opinn fund

Formaður nefndarinnar, Jón Þór Ólafsson, fór einnig fram á að þær Áslaug Arna og Halla Bergþóra afléttu trúnaði af því sem sagt var um símtölin á nefndarfundi. Dómsmálaráðherra ætlar ekki að bregðast við því. „Nei, ég taldi formanni í lófa lagið að halda frekar opinn fund í staðinn fyrir að aflétta trúnaði eftir á, á fundi sem var ekki tekinn upp til að leyfa pólitískum andstæðingum að túlka orð mín þar með sínum hætti,“ segir Áslaug Arna.