Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Var Ágirnd fyrsta íslenska költmyndin?

Mynd: Bíóland / RÚV

Var Ágirnd fyrsta íslenska költmyndin?

15.03.2021 - 20:00

Höfundar

Kvikmynd Svölu Hannesdóttur og Óskars Gíslasonar, Ágirnd, hneykslaði fólk þegar hún var frumsýnd 1955. Lögreglustjórinn í Reykjavík stöðvaði sýningar á myndinni að beiðni biskups.

Kvikmyndin Ágirnd er 35 mínútna kvikmynd án orða sem byggist á látbragðsleiknum Hálsfestinni eftir Svölu Hannesdóttur. Svala lék einnig í myndinni og leikstýrði. Hún er því fyrsta konan til að leikstýra kvikmynd á Íslandi. Óskar Gíslason, frumkvöðull í kvikmyndagerð á Íslandi, framleiddi og kvikmyndaði en Ágirnd fékk óblíðar móttökur í blöðum landsins þegar hún var sýnd. 

Myndin lýsir því hvernig einn og sami hluturinn verður valdur að ógæfu manna af ýmsum þjóðfélagsstigum. Eins og kemur fram í Bíólandi, nýrri heimildarþáttaröð Ásgríms Sverrissonar um íslenska kvikmyndasögu, þótti það hneykslanlegt að bera á borð fyrir Íslendinga að þeir væru á einhvern hátt siðspilltir.

Myndin sýnir prest stela hálsfesti af konu eftir að hann veitir henni nábjargirnar, sem þótti ósvífið og prestastéttin reis upp á afturfæturna. Eftir nokkra daga stöðvaði lögreglustjórinn í Reykjavík sýningar á myndinni að beiðni biskups. Þegar sýningar hófust á ný eftir afléttingu bannsins var aðsókn lítil og þeim því fljótlega hætt. Í tímans rás hefur myndin hins vegar öðlast nokkurn költ-status, kannski fyrst íslenskra kvikmynda.

Mynd með færslu
 Mynd: Bíóland - RÚV
Svala Hannesdóttir í hlutverki sínu í Ágirnd.

Svölu auðnaðist ekki að halda áfram kvikmyndagerð og lést 1993. Þegar Íslandsdeild WIFT, samtaka kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, var stofnuð   var Svölu minnst sérstaklega og hún gerð að fyrsta heiðursfélaganum.

„Ég er mjög glöð yfir að hafa fengið að hitta hana og kynnast henni. Okkur fannst alveg augljóst að þetta var fyrsti kvenleikstjóri í sögu landsins,“ segir Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri. „En hún vissi það vel að hún naut mjög kunnáttu og færni Óskars, það fór ekki fram hjá henni.“

Í fyrsta þætti Bíólands er fjallað um fyrstu ár kvikmyndagerðar á Íslandi. Þar er fjallað ítarlega um starf Óskars Gíslasonar kvikmyndagerðarmanns sem framleiddi Ágirnd og fleiri myndir í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar.

Óskar dreymdi stóra drauma og stofnaði ásamt öðrum kvikmyndafélagið Íslenzkar kvikmyndir hf. Árið 1957. Ætlunin var að leggja út í umfangsmikla framleiðslu kvikmynda. Sá draumur beið hins vegar skipsbrot vegna samstarfsörðugleika og fór fyrirtækið á hausinn. Þegar Sjónvarpið var stofnað 1966 var Óskar fenginn til að setja á stofn ljósmyndastofu Sjónvarpsins sem reyndist farsælt verkefni. „Í mínum huga felst arfleifð Óskars Gíslasonar í því að hann gefur okkur þessa stóru mynd af þjóðlífi okkar um miðja síðustu öld,“ segir Erlendur Sveinsson fyrrum forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands, sem er í engum vafa um að arfleifð hans er stór.

Mynd með færslu
 Mynd: Bíóland - RÚV
Óskar Gíslason.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Kvikmyndasaga Íslands rakin í nýrri þáttaröð