Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tekur af allan vafa um litakóðunarkerfi 1. maí

15.03.2021 - 21:02
Mynd: RÚV / RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra segir að frá og með 1. maí verði tekið upp litakóðunarkerfi við landamærin. Það sé ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Aðgerðir innanlands verða óbreyttar fram yfir páska. Stefnt er að því að bólusetja þorra þjóðarinnar fyrir júlílok.

Nú er rúmt eitt ár liðið síðan kórónuveirufaraldurinn tók öll völd hér á landi sem og annars staðar. Á morgun, 16. mars er ár liðið frá fyrsta degi samkomubanns. Ríkisstjórnin hefur farið nánast í einu og öllu eftir tillögum sóttvarnalæknis og þótt mikil samstaða sé í samfélaginu almennt um aðgerðirnar eru margir afar ósáttir við allar þær takmarkanir sem við búum við og finnst verulega þrengt að persónufrelsinu. Rætt var við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í Kastljósi í kvöld.

Litlar breytingar í minnisblaðinu

Þórólfur Guðnason hefur skilað minnisblaði til ráðherra um tillögur bæði innanlands og við komuna til landsins. Svandís segir að lítilla tíðinda sé að vænta úr þeim tillögum. Næstu aðgerðir innanlands séu óbreyttar og gilda næstu þrjár vikur. Hann leggur til að landamæraaðgerðir nái líka til barna, en breska afbrigðið virðist valda meiri veikindum hjá börnum en síður smitandi afbrigði. Svandís segist vonast til þess að á næstu dögum liggi fyrir nákvæmari áætlanir um bólusetningu á öðrum ársfjórðungi.

„Við gerum ráð fyrir því að miðað við áætlanir eins og þær líta út í lok júlí þá séum við með þetta markmið okkar sem eru 180-190 þúsund manns sem er þetta meginmarkmið. Svo höldum við áfram ef þar. Við erum búin að tryggja okkur bóluefni fyrir miklu fleiri en íbúa landsins, en við sjáum á þvi sem er að gerast með Astra Zenica að það er það sem við þurfum að gera. Við erum alltaf að sjá hvernig efnin gefast, það getur komið bakslag í framleiðslu, það er ýmislegt sem getur gerst. Sem betur fer er það þannig að við höfum verið að fá góðar fréttir en slæmar. Þetta er svona tvö skref áfram og eitt skref afturábak og það mun vera þannig áfram,“ segir Svandís.

Skýrt að litakóðunarkerfið er það sem koma skal

Hún segist sannfærð um að það hafi verið rétt ákvörðun að semja um afhendingu bóluefna með ríkjum Evrópusambandsins. Svandís var spurð að því hvort að ekki sé komin upp ný staða varðandi aðgerðir innanlands nú þegar stór hluti viðkvæmasta hóps þjóðarinnar, þeir elstu, hafa fengið bólusetningu. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, gagnrýndi sóttvarnalækni í hádegisfréttum og sagði hann hafa látið eins og ákvörðun um litakóðunarkerfi við landamærin liggi ekki fyrir. Svandís segir það hins vegar liggja skýrt fyrir.

„Ríkisstjórnin hefur talað alveg skýrt í þeim efnum að þá taki við þetta litakóðunarkerfi sem við sjáum á hverjum degi þegar við sjáum Ísland grænt. Síðan fari það eftir því á hvaða stað viðkomandi ríki er hvaða reglur gilda fyrir viðkomandi borgara á landamærum. Þetta er okkar markmið, það hefur verið mjög skýrt, ríkisstjórnin hefur ákveðið þessa leið frá og með 1. maí. Það er mikilvægt fyrir alla sem eru að skipuleggja sína starfsemi o.s.frv. að þetta liggi fyrir,“ segir Svandís. 

Ætlar að gefa kost á sér áfram

Svandís var spurð að því í lok viðtalsins hvort að hún ætli að gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Alþingi í Reykjavíkurkjördæmi.

„Ef félagar mínir eru til í það þá er ég til í það að taka eina lotu í viðbót að minnsta kosti. Ég held að þetta snúist um það hvort að manni finnst maður eiga erindi og mér finnst ég eiga það og fullt af verkefnum framundan,“ segir Svandís.

Jafnframt segir hún að stjórnarsamstarfið hafi gengið vonum framar í hennar huga. Hún hafi verið hikandi um ágæti þess í upphafi en hún telji það hafa verið góða ákvörðun og að það hafi gefist vel í faraldrinum.

„Það er ekki þessi hefðbundna stjórn og stjórnarandstaða átakamenning í gangi heldur erum við að brúa bilið frá vinstri til hægri inni í herberginu og komumst að niðurstöðu, og það held ég að sé mjög farsælt þegar þjóðin er í svona barningi eins og hún er núna,“ segir Svandís. 

Kastljós kvöldsins má sjá í heild hér að ofan.