Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stutt og snörp 70 þúsund tonna loðnuvertíð á enda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Stefánsson
Veiðum á stuttri loðnuvertíð er nú lokið, en íslenski flotinn mátti aðeins veiða tæp 70 þúsund tonn. Talið er að útflutningsverðmæti afurða verði allt að 25 milljarðar króna.

Ekkert íslenskt loðnuskip er nú á sjó, enda hafa allar útgerðir lokið veiðum á þessari vertíð sem stóð aðeins í mánuð. Og það tókst að spila eins vel og hægt var úr vertíðinni.

„Það spilaðist mjög vel úr þessu“

„Þessi 70 þúsund tonn sem Íslendingar máttu veiða og svo keyptum við 10 þúsund tonn af Norðmönnum, það spilaðist mjög vel úr þessu og þetta er allt að fara í mjög þokkaleg verð,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Útflutningsverðmæti gæti orðið allt að 25 milljarðar

Útgerðirnar stýrðu veiðum á vertíðinni þannig að veiði hófst ekki fyrr en hrognafylling loðnunnar var orðin þannig að hæsta verð fengist fyrir afurðirnar. Þess vegna eru verðmætin eins mikil og raun ber vitni en talið er að útflutningsverðmæti afurða geti orðið allt að 25 milljarðar króna. „Já, já, menn eru náttúruleg miklu betur búnir enn menn voru áður. En stóra málið núna er að menn voru náttúrulega alveg einstaklega heppnir með veður. Til dæmis þegar menn voru að taka í hrognin var bara blíða annan tímann.“ 

Útlit fyrir að allar afurðir seljist þrátt fyrir hátt verð

Sölumenn loðnuafurða sem rætt var við í dag segja gott útlit með sölu á afurðum af vertíðinni og útlit fyrir að allt seljist þrátt fyrir hátt verð. Nú sé verið að semja um verð á verðmætustu afurðunum. Það hafi orðið talsverðar verðhækkanir á loðnuafurðum eftir vertíðna fyrir tveimur árum og því þurfi markaðir tíma til að aðlagast því háa verði sem nú er á þessum afurðum. En mikill skortur var orðinn á mörkuðum fyrir frysta loðnu og eftirspurnin er því mikil. „Jú,jú, það stendur í þeim. Þetta eru náttúrulega miklir kaupmenn Japanir og Asíumennirnir, sérstaklega Japanir. Vilja kaupa ódýrt. En það er ekki í boði þetta árið allavega.“

Bjartsýnn á góða vertíð næsta vetur

Friðrik segist bjartsýnn á framhaldið og vísar þar í góða mælingu á ungloðnu í haust sem verði undirstaða veiðanna á vertíðinni 2021/2022. Þá mældust um 146 milljarðar einstaklinga eða 734 þúsund tonn af ókynþroska loðnu. „Sem þýðir að það ætti að vera mjög góð loðnuvertíð næsta vetur. Þetta er næst hæsta mæling í 40 ára sögu mælinga. Auðvitað er einhver breyting í lífríkinu en menn vonast nú til að þetta skili sér nokkuð vel inn.“