Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óeirðarlögregla stöðvaði mótmæli í Hollandi

15.03.2021 - 06:21
epa09073960 Police officers disperse anti-lockdown protesters at the Malieveld in The Hague, The Netherlands, 14 March 2021. After protesting for weeks against coronavirus measures, demonstrators ended their protests in The Hague.  EPA-EFE/ROBIN VAN LONKHUIJSEN
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Hollenska lögreglan beitti öflugri vatnsbyssu til þess að kveða niður mótmæli í Haag í gær. Um tvö þúsund voru saman komin til þess að mótmæla aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins og öðrum aðgerðum stjórnvalda. Óeirðarlögregla var kölluð út til þess að kveða niður mótmælin. Nokkrir voru handteknir að sögn fréttastofu BBC.

Aðeins tveir mega koma saman samkvæmt sóttvarnarreglum í Hollandi. Mótmælendur höfðu þó leyfi til þess að 200 manns mættu koma saman, en fjöldinn var um tífaldur á við það sem var leyft. Útgöngubann gildir frá klukkan níu að kvöldi til hálf fimm á morgnana í nokkrum hollenskum borgum. Bannið tók gildi í janúar, og var það í fyrsta sinn síðan nasistar hertóku landið í seinni heimsstyrjöld sem útgöngubann er lagt á í landinu. Veitingastaðir og krár eru lokaðar, ásamt verslunum sem ekki selja nauðsynjavörur. Yfir 1,1 milljón Hollendinga hefur greinst með kórónuveiruna frá því faraldurinn hófst í fyrra, og fleiri en 16 þúsund eru látnir.

Þingkosningar hefjast í landinu í dag, og standa yfir fram á miðvikudag vegna faraldursins. Er það gert til þess að dreifa álaginu á kjörstöðum.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV