Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggur til að landamæraaðgerðir nái líka til barna

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði heilbrigðisráðherra minnisblaði um helgina. Hann leggur til að landamæraaðgerðir nái líka til barna. Breska afbrigðið virðist valda meiri veikindum hjá börnum en minna smitandi afbrigði. Um helmingur kórónuveirutilfella sem greinst hafa á landamærunum í mars er af breska stofninum. 

Skerpti á ákveðnum atriðum

Þórólfur vildi ekki útlista tillögur sínar nákvæmlega en segist hafa lagt til nánast óbreytt fyrirkomulag. „Ég lagði til aðeins skarpari útfærslur á sumum hlutum,“ segir hann. Tillögurnar lúta meðal annars að því að landamæraaðgerðir nái að einhverju leyti yfir börn. „Ég hef bara viljað vekja athygli á því að þetta breska afbrigði sem er erlendis virðist valda meiri veikindum hjá krökkum. Það eru tölur frá Noregi um það og ég held það sé bara mjög mikilvægt að við reynum að tryggja að smit komi ekki hingað inn með aðferðum sem eru ekkert íþyngjandi fyrir fólk,“ segir Þórólfur. 

Breska afbrigðið í sókn

Breska afbrigðið hefur verið svolítið fyriferðarmikið á landamærunum í mars. Þórólfur segir að um helmingur þeirra sem greinst hefur jákvæður á landamærunum hafi verið með breska afbrigðið, það hafi verið sérstaklega áberandi hjá fólki sem var að koma frá Póllandi. „Það er greinilega í mikilli sókn erlendis, það endurspeglast bara í landamærasmitunum hér.“