Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Í skýjunum yfir tilnefningu til Óskarsverðlauna

Mynd: RUV / RUV

Í skýjunum yfir tilnefningu til Óskarsverðlauna

15.03.2021 - 15:59

Höfundar

Já-fólkið, teiknimynd Gísla Darra Halldórssonar, er tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í ár í flokki styttri teiknimynda. Myndin fjallar um íbúa í ónefndri blokk, og er þeim fylgt eftir í einn sólarhring. Gísli Darri er í skýjunum og vonast til að geta verið viðstaddur hátíðina.

„Ég var mjög hissa fyrst því ég átti enga von á þessu, ég veit það hljómar mjög klisjulega. En svo kom bara svaka gleði, það var ekkert mikið PR-power á bak við þessa mynd,“ segir Gísli Darri um tilnefninguna. 

Um hvað fjallar myndin?

„Þetta fjallar um fólk í úthverfi, þeirra daglega líf. Þetta eru litlu hetjurnar sem þurfa að berjast við hversdaginn,“ segir hann. Hann langaði ekki síst að sýna að hann gæti leikstýrt. „Ég hef skrifað mikið, það er ákveðið eldgos eða orðagos og mig langar að koma þessu út. Ég vildi gera mynd sem ég yrði stoltur af og sanna að ég gæti leikstýrt.“

Myndin var valin besta íslenska stuttmyndin á RIFF-kvikmyndahátíðinni í Reykjavík í september og hlaut áhorfendaverðlaun á Nordisk Panorama í haust. Hún var valin besta evrópska stuttmyndin á alþjóðlegri teiknimyndahátíð á Spáni í október, og hlaut áhorfendaverðlaun á stuttmyndahátíð í Uppsala í Svíþjóð. Um þrettán manns komu að myndinni, þar af sex leikarar. Aðeins eitt orð kemur fyrir í teiknimyndinni, orðið „já“ sem er síendurtekið með ótal blæbrigðum. 

„Þetta er svolítið kómískt, hálfgerð viðbót við þöglu myndirnar, í staðinn fyrir að vera alveg þögult er bara eitt orð,“ segir hann. „Ég áttaði mig á því hvað er magnað við tungumálið að við höfum þetta frumstæða tóna-tungumál sem við virðumst kunna að eðlisfari. Þegar dóttir mín byrjaði að tjá sig með tónum vissi ég oft strax hvað var að, bara út frá tónunum. Mér fannst þetta bara tilvalinn stíll,“ bætir hann við. 

Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin 26. apríl. Þú ferð varla út, eða hvað?

„Ó, ekki segja þetta,“ segir Gísli og hlær: „Ég var svo óviðbúinn þessu að ég hef ekki hugmynd, en ég vona að ég komist. Árið í fyrra snerist um að fylgja myndinni eftir á kvikmyndahátíðum í fartölvunni heima. Ég sá hana einu sinni með áhorfendum, það var á kvikmyndahátíðinni RIFF. Ekki það að ég sjái hana á stóra skjánum þarna, en það væri gaman að komast á hátíðina,“ segir hann og bætir við að til standi að halda Óskarsverðlaunahátíðina á fjórum ólíkum stöðum svo tryggja megi fjarlægð milli fólks í sóttvarnarskyni. 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Íslensk teiknimynd tilnefnd til Óskarsverðlauna

Kvikmyndir

Já-Fólkið bíður svars frá Óskarsakademíunni