Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gríðarleg fjölgun flóttabarna til Bandaríkjanna

Mynd: EPA-EFE / EFE
Frá því í ársbyrjun hefur fylgdarlausum börnum og ungmennum, sem leggja í háskaför norður yfir landamærin, fjölgað mikið. Bara í janúar reyndu tæplega 6.000 börn, án forráðamanna eða fylgdar fullorðins að komast til Bandaríkjanna. Það eru um tvöfalt fleiri en á sama tíma 2020.

Flest barnanna sem undanfarið hafa farið yfir landamærin eru á táningsaldri og koma aðallega frá Guatemala, El Salvador og Hondúras. Samkvæmt frétt CNN voru á þriðjudag um 3.400 börn í gæslu landamærayfirvalda. Stærsti hluti þeirra, um 2.800, bíða þess að komast í hentugra athvarf en aðeins rúmlega 500 pláss voru tiltæk fyrir allan þennan fjölda í tímabundnu úrræði. Sem sýnir vel hve stór vandinn er. Aðbúnaður barna í slíkum úrræðum þykir vægast sagt óboðlegur og hefur verið harðlega gagnrýndur, í stjórnartíð hinna ýmsu forseta, sérstaklega Donalds Trumps, fyrir að vera ekkert annað en búr. 

Ríkisstjórn Bidens hefur ekki gefist mikill tími til að búa sig undir það sem stefnir í á landamærunum en vill greinilega reyna að bregðast hratt og örugglega við. Ástæðurnar fyrir fjölgun barna sem reyna að fara yfir eru margvíslegar. Fátækt, ofsóknir og átök glæpagengja eru algengastar en öflugir fellibyljir, sér í lagi Eta og Jóta, og heimsfaraldur kórónuveiru hafa bætt gráu ofan á svart. En af hverju eru börn svo stór hluti þeirra sem reyna að komast yfir landamærin? Ástæðurnar fyrir því geta verið margar og ólíkar, börn verða viðskila við foreldra sína einhvers staðar á langri og erfiðri leið eða foreldrarnir deyja. Sum eldri barnanna reyna sjálf að slíta sig frá fjölskyldum og leggja ferðalagið á sig ein og óstudd.

Önnur og pólitískari ástæða gæti verið fyrir fjölgun flóttamanna, og kemur eflaust engum á óvart: Stjórnarskiptin í Hvíta húsinu. 
 

epa09066254 Roberta Jacobson, coordinator for the southwest border on the White House National Security Council, speaks as Jen Psaki, White House press secretary, left, listens during a news conference in the James S. Brady Press Briefing Room at the White House in Washington, DC, USA, 10 March 2021.  EPA-EFE/Al Drago / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Bloomberg POOL
Roberta Jacobson sagði landamærin ekki opin á blaðamannafundi Hvíta hússins.

„Landamærin eru ekki opin“

Roberta Jacobson samhæfingarstjóri á sunnanverðum landamærum Bandaríkjanna tók til máls á blaðamannafundi Hvíta hússins 10. mars síðastliðinn. Þar réði ungum innflytjendum frá því að leggja upp í hættulegan leiðangur frá Mið- og Suður-Ameríku, gegnum Mexíkó til Bandaríkjanna. Alla vega ólöglega. Finna ætti leiðir til að auðvelda fólki að gera þetta allt saman löglega.

Hún sagði að sértækum aðgerðum hefði verið hrint í framkvæmd til að afturkalla stefnu fyrri ríkisstjórnar í innflytjendamálum. Núverandi stjórn myndi sækja fram með nýja sýn. Hún nefndi ýmsar leiðir til að draga úr harkalegum móttökum á landamærunum. Í samráði við stjórnvöld í Mexíkó og ýmsar stofnanir yrði unnið að því að sameina fjölskyldur og bæta aðbúnað þeirra sem sitja fastir á landamærunum. Með þessu var hún þó ekki að breiða út faðminn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar: „Landamærin eru ekki opin,“ sagði Jacobson.

Sagan endalausa á landamærunum

Umræðan um erfiðleika á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó er alls ekki ný. En eins og frægt er orðið dró fyrrverandi forseti, Donald Trump, vægast sagt upp dökka mynd af stöðunni þar suður frá og hvernig taka ætti á móti fólki sem kemur þar yfir og hvort ætti að taka á móti því yfir höfuð. Hann sykurhúðaði ekki umræðuna eins og fyrri forsetar og varð tíðrætt um múrinn alræmda og að meðal flóttafólksins væru margir úlfar í sauðargærum. Og Trump lét verkin tala. Eftirlit á landamærum var hert til muna og það í báðar áttir. Undir lok stjórnartíðar hans var þrengt að flóttafólki úr báðum áttum. Erfiðara var að komast inn og erfiðara að losna aftur úr viðjum regluverksins án mikillar fyrirhafnar og pappírsvinnu. 

Biden hefur nú verið við völd í rúma 50 daga. Strax frá fyrsta degi hefur áherslan að miklu leyti verið á að snúa Bandaríkjunum frá stefnumálum Trumps. “I’m not making new law, I’m eliminating bad policy.” Ég er ekki að semja ný lög, ég er að losa okkur undan slæmri stefnu, segir Biden. Þar eru innflytjendamál ekki undanskilin. Strax í fyrstu vikunni í embætti skrifaði hann undir þónokkrar forsetatilskipanir sem varða innflytjendastefnu en þær hafa raunar takmörkuð áhrif fyrst um sinn. Kerfið er þungt í vöfum og tilskipanirnar snerta aðeins toppinn á ísjakanum. Fjölmargar stofnanir sem tengjast þessum málaflokki hafa lengi verið fjársveltar og þar að auki orðið að skerða aðstöðu hælisleitenda um nær helming vegna sóttvarnaaðgerða.

Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi í Hvíta húsinu, tók í sama streng og Roberta Jacobson á blaðamannafundi á þriðjudag. Senda þyrfti skýr skilaboð um að ferðin til Bandaríkjanna væri mikil háskaför, sér í lagi fyrir börn, og að nú væri ekki rétti tíminn til að koma.
 

epa09070899 A group of migrants gather in a camp installed in the vicinity of the border port of Chaparral, in the border city of Tijuana, Baja California Sur, Mexico 12 March 2021. The cold weather that has in recent weeks affected Tijuana has caused respiratory illnesses in children from a migrant camp waiting to process their asylum application in the United States.  EPA-EFE/Joebeth Terriquez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Hópur flóttamanna við landamærastöðina Chaparral í landamærabænum Tijuana í Mexíkó.

Nýr forseti gefur mörgum von

Það getur verið lífshættulegt að reyna að fara yfir landamærin. Það er áhætta sem enginn tekur nema í örvæntingu. Í tæp 30 ár hafa Bandaríkjaforsetar gjarnan lagt áherslu á glæpsamlegar hliðar flóttans frá Mið- og Suður-Ameríku en minna hefur farið fyrir umræðu um dýpri orsakir þess að fólk leggur á flótta. Staðan á landamærunum á sér langa sögu og allir forsetar í seinni tíð hafa verið gagnrýndir fyrir viðbrögð sín. Enda er þetta ræða afar flókið mál og Bandaríkin grípa til aðgerða seint í ferlinu, það er að segja þegar fólk er komið að eða yfir landamærin. Löggæsla hefur á undanförnum áratugum styrkst og orðið svo gott sem hervædd, með fleiri landamæravörðum og aukinni tækni og vopnaburði. Þá hefur aðbúnaður hælisleitenda lengi verið gagnrýndursem og tíminn sem fer í málsmeðferð þeirra. Lausnin á þessu er ekki einhliða og sögur og reynsla þeirra sem sækja yfir landamærin ólíkar.

Joe Biden hefur sem fyrr segir verið upptekinn við að snúa frá stefnu fyrirrennara síns í innflytjendamálum. Biden segir að þannig endurheimti Bandaríkin orðspor sitt sem „vonarviti“ fyrir innflytjendur og flóttafólk. Þeir sem hafa beðið eftir málsmeðferð í Mexíkó eða stefna á að reyna að komast yfir sjá nú loksins ljós við enda ganganna eftir að Trump lét af embætti. Ein þeirra sem beðið hefur á landamærunum er Nuria Margot Cardenas, 38 ára, kölluð Margot. Hún kom til Mexíkó frá Níkaragva ásamt 12 ára dóttur sinni árið 2019 þegar metfjöldi flóttafólks stefndi yfir til Bandaríkjanna. Hún segist hafa verið mjög hrædd því lögreglan hafi komið að leita að henni. Því hafi hún ákveðið að leggja á flótta. Þær mæðgur sóttu um hæli í von um að flytja til fjölskyldu sinnar sem býr á Miami í Flórída. „Vegna faraldursins hefur umsókninni minni verið frestað. Það er ár síðan að málið mitt var síðast tekið fyrir,“ segir Margot. Hún bíður nú eftir tölvupósti frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um hvenær mæðgurnar megi fara í skimun fyrir COVID-19 og fara til Bandaríkjanna. Draumurinn sé því nærri en á sama tíma fjarlægur. Hún segir að nýr forseti í Bandaríkjunum hafi loksins kveikt vonarneista á ný.

epa09068463 US President Joe Biden signs the American Rescue Plan in the Oval Office, in the White House, Washington, DC, USA, 11 March 2021.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Joe Biden skrifar endanlega undir bjargræðispakkann.

Björgunarpakki Bidens

Og það eru eflaust fleiri sem verða bjartsýnni á næstunni, sérstaklega íbúar í Bandaríkjunum. Strax í rúmlega 50 daga stjórnartíð sinni hefur Biden fengið samþykkta einhverja dýrustu bjargræðisaðgerð í sögu landsins. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti á miðvikudag áætlun sem hljóðar upp á næstum tvær billjónir dollara í fjárhagsaðstoð vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Milljón milljónir eru í einni billjón. Þetta eru sem sagt stjarnfræðilegar upphæðir sem erfitt er að átta sig á en til að setja það í eitthvert samhengi var öll verg landsframleiðsla Bandaríkjanna árið 2019, fyrir heimsfaraldurinn, tæplega tuttugu og tvær billjónir dollara. Í honum er stuðningur sem mörgum þykir á suman hátt óamerískur, ef svo má segja. Pakkinn stóri er meira í líkingu við það sem stjórnvöld víða í Evrópu hafa ráðist í til þess að minnka skellinn af völdum kórónuveirunnar. 

Í nýju bjargræðisaðgerðinni eru meðal annars beinar peningagreiðslur til fólks í lægri tekjuþrepum, framlenging á atvinnuleysisbótum og aukin matarúthlutun. Hluti þessarar stjarnfræðilegu upphæðar er sérstaklega eyrnarmerkt barnafjölskyldum. Fyrir hvert barn fær fólk með tæplega 200 þúsund dollara í árstekjur 500 til rúmlega 3000 dollara á hvert barn árlega. En á sama tíma og ríkið ver metfjárhæðum í að styrkja stoðir samfélagsins og kasta líflínu til þeirra sem verst hafa orðið úti í kórónuveirukreppunni, sérstaklega barnafjölskyldna, standa önnur börn í röðum við landamærin í suðri. Þeim mun líklega ekki fækka í bráð og þessi staða verður ein af mörgum öðrum áskorunum Bidens á næstunni. 

Jóhannes Ólafsson