Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gera hlé á athugun og veita Umboðsmanni svigrúm

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur gert hlé á athugun sinni á samskiptum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í tengslum við málið sem kom upp í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar í morgun. Formaður nefndarinnar segir að það skapi rými fyrir Umboðsmann Alþingis til þess að hefja frumkvæðisathugun á málinu.

Símtöl Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, hafa verið til umfjöllunar á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að undanförnu.

Áslaug Arna hringdi í Höllu Bergþóru á aðfangadag vegna málsins sem kom upp í Ásmundarsal á Þorláksmessu, þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á meðal gesta. Áslaug Arna hefur sagt að hún hafi ekki skipt sér af rannsókn málsins, heldur aðeins spurt um upplýsingagjöf lögreglu. Halla Bergþóra hefur sagt að hún telji að Áslaug Arna hafi ekki „haft afskipti af rannsókn sakamáls“ í símtölunum.

Málið var til umfjöllunar á fundi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Jón Þór Ólafsson, formaður nefndarinnar, segir í samtali við fréttastofu að á fundinum hafi verið ákveðið að gera hlé á athugun nefndarinnar. Jón Þór segir að það skapi rými fyrir Umboðsmann Alþingis til að meta hvort hann vilji hefja frumkvæðisathugun á málinu. Ekkert liggur fyrir um hvort Umboðsmaður hyggst ráðast í slíka athugun.

Jón Þór óskaði eftir því við Áslaugu Örnu og Höllu Bergþóru í síðustu viku að þær afléttu trúnaði um það sem þær hafa sagt um málið á fundum nefndarinnar. Jón Þór segir að ekki hafi enn borist svar.