Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flutningstími getur tvöfaldast þegar Baldur er úr leik

Baldur dreginn í höfn af dráttarbátnum Fönix þegar hann varð vélarvana í apríl 2021
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá eldisfyrirtækinu Arctic Fish segir miklu máli skipta að hægt sé að treysta á áreiðanlegar ferjusiglingar um Breiðafjörð. Falli niður ferð hjá Baldri getur flutningstími vöru frá sunnanverðum Vestfjörðum tvöfaldast.

Breiðafjarðarferjan Baldur liggur nú biluð við bryggju og hefur verið síðan á föstudag. Ný túrbína kom til landsins í gær og er lagt upp með að Baldur sigli á ný á miðvikudag.

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish, segir að tafir á flutningum um Breiðafjörð hafi neikvæð á áhrif á starfsemi fyrirtækisins. Bæði fiskeldisfyrirtækin Arctic Fish og Arnarlax reiða sig á að geta flutt afurðir með ferjunni, sér í lagi þegar ófært er á vegum. Áreiðanlegar ferjusiglingar skipti öllu máli fyrir þau fyrirtæki sem vinna með ferskan fisk á sunnanverðum Vestfjörðum.

„Þannig að það að missa þessa lífæð út, hefur ofboðslega mikil áhrif af því að þarna var vara á leiðinni sem missir þá af því að komast i skip og þá getur orðið um tvöfalt lengri flutningstími á vöru sem hefur takmarkaðan líftíma,“ segir hann.

Þegar Baldur bilaði fyrir helgi voru þar um borð 80 tonn af laxi frá fyrirtækinu Arnarlax og á meðan á biluninni stóð lá slátrun hjá fyrirtækinu niðri á Bíldudal.

Þá voru starfsmenn frá Arctic Fish um borð í Baldri þegar hann bilaði og voru þar fastir í meira en sólarhring ásamt öðrum farþegum og áhöfn.

Samgönguráðherra sagði um helgina að siglingar um Breiðafjörð verði best tryggðar með nýrri ferju. Sigurður segir þetta vandamál ekki nýtt af nálinni, en hann hafi trú á því að nú verði breyting á.

„Að ræða þetta er það sem skiptir mestu máli en látum verkin tala og finnum lausn á þessu sem er ásættanleg fyrir bæði íbúa sem og fyrirtæki á svæðinu.“