Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Flókið að færa skólastarf í bráðabirgðahúsnæði“

15.03.2021 - 17:49
Fossvogsdalur, útivistarsvæði, útivist, göngustígar, leiktæki, hjólastígar. Leiksvæði.
 Mynd: Reykjavíkurborg - Aðsend mynd
Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar hefur ekki borist svar frá Barnaspítala Hringsins um það hvort spítalinn geti veitt aðstoð við að meta heilsufar barna við Fossvogsskóla. Helgi Grímsson, sviðstjóri skóla- og frístundasviðs, segir sviðið vonast eftir því að heilbrigðisstarfsfólk geti haft yfirsýn yfir þau einkenni sem nemendur skólans hafa kvartað yfir og kunna að tengjast myglugró í húsnæði skólans. Á næstu dögum standi til að starfshópur meti ástandið á húsinu. 

„Það er óljóst hvernig verklagið í samstarfinu við Barnaspítalann yrði en við teljum mikilvægt að fagfólk hafi yfirsýn og leiti að sameiginlegum þræði í lýsingum nemenda á einkennum. Svo þarf að meta hvort það séu einhverjar mælingar sem enn á eftir að gera. Einkennin eru ólík og af mismunandi toga og okkur finnst mikilvægt að fá einhvern sem hefur menntun og reynslu á þessu sviði,“ segir hann. 

Tilkynnt um einkenni hjá á þriðja tug barna

Mygla hefur verið viðvarandi vandi í húsnæði Fossvogsskóla síðan í byrjun árs 2019 en þá fundust varhugaverðir myglusveppir í byggingunni. Síðan þá hefur verið ráðist í ýmsar framkvæmdir til að vinna bug á honum. Á vorönn 2019 fór kennslan fram í öðru húsnæði um nokkra hríð á meðan á framkvæmdum stóð.

Framkvæmdirnar virðast ekki hafa borið tilætlaðan árangur og í myglumælingu í lok síðasta árs fundust merki um myglu sums staðar í skólanum. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um sýni sem voru tekin í húsnæði skólans 16. desember 2020 kemur fram að ýmsar tegundir myglu hafi fundist í húsinu, til dæmis kúlustrýnebba, og örlítið af aspergillus-tegundum, til dæmis litafrugga sem framleiðir krabbameinsvaldandi efnið sterigmatocystin. Þar segir einnig að börn séu á meðal þeirra sem eru hvað næmust fyrir áhrifum myglusveppa.

Tilkynnt hefur verið um einkenni hjá á þriðja tug barna, foreldrar hafa beðið um að börn forðist ákveðin svæði í skólanum og sumir jafnvel tekið börn sín tímabundið úr skólanum. Foreldrar hafa gagnrýnt harðlega að skólinn skuli ekki vera rýmdur og að rými sem börnunum líði illa í séu enn notuð.

„Hafa verið gerðar stórkostlegar endurbætur“

Nú er vitað til þess að mygla mælist enn sums staðar í skólanum en það er enn óljóst hversu alvarleg staðan er. Þarf ekki að grípa til róttækra aðgerða til þess að börnin njóti vafans? Þið hafið áður rýmt húsnæðið.

„Það er búið að ganga mjög langt í verklegum framkvæmdum og slíku. Þetta er flókin staða því það hafa verið gerðar stórkostlegar endurbætur þarna. Við heyrum mismunandi raddir um næstu skref. Þess vegna erum við í erfiðri stöðu og þess vegna vil ég að sérfræðingar veiti okkur ráðgjöf um góð viðbrögð,“ segir Helgi Grímsson. 

Hann rifjar upp að þegar skólinn var rýmdur í byrjun árs 2019 hafi legið fyrir áætlun um framkvæmdir, nú liggi ekkert slíkt fyrir. „Þessi ákvörðun var á sínum tíma tekin í ljósi niðustaða mælinga og þá var vitað til hvaða framkvæmda ætti að grípa. Nú vantar okkur betri upplýsingar og ráðleggingar til að við vitum við hvað er að etja,“ segir hann: „Það er flókin staða og meira en að segja það að færa starfsemina í bráðabirgðahúsnæði án þess að vita hvað þarf að gera.“ 

Teymi leggst yfir niðurstöður

Og hvað stendur þá til að gera núna?

„Við erum búin að fá verkfræðistofuna Eflu til að fara inn i þetta verkefni með okkur og Verkís er líka búið að vera í þessu með okkur frá 2019. Verkfræðistofurnar vinna í þessu í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar. Það fannst myglugró, annað hvort er enn mygla til staðar sem hefur ekki tekist að finna eða eitthvað á sveimi eftir framkvæmdir liðinna mánaða. Við erum að skoða það bæði. Við verðum að fá að vita eins fljótt og auðið er hver staðan er,“ segir hann. „Okkar teymi leggst yfir athugasemdir foreldra og niðurstöður mælinganna frá því í desember,“ segir hann.

Meta hvort myglan sé varhugaverð

Nú eru foreldrar og nemendur margir örvæntingarfullir og hafa verið lengi. Hvenær fást skýrari niðurstöður og verkáætlun?

„Það kemur smátt og smátt. Sumt er greinilega í lagi en það eru rými sem þarf að skoða betur. Þessi hópur þarf að meta hvort það séu rými sem eru þannig að magn myglu eða samsetning myglu sé þannig að það sé varhugavert fyrir börnin að vera þar,“ segir hann. 

Og hvenær verður það metið?

„Ég var á fundi rétt áðan með hópnum sem skoðar þetta og þau ætluðu að fara í skólann í dag eða á morgun. Það var beðið um að þau færu strax yfir niðurstöður úr fyrri sýnatökum og lýsingar nemenda,“ svara Helgi.
„Svo verðum við að nota páskafríið til framkvæmda svo þetta þarf að liggja fyrir fyrir þann tíma,“ segir hann.  

Hver ber ábyrgð á að tryggja öryggi skólabarna í Reykjavík?

„Það er sameiginleg ábyrgð borgarinnar, skóla- og frístundasviðs og skólans. Svo reiðum við okkur á stofnun eins og heilbrigðiseftirlitið,“ segir hann.