Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fleiri ríki hætta notkun bóluefnis AstraZeneca

15.03.2021 - 05:55
epa09074883 (FILE) - An employee with the Covid-19 vaccine by AstraZeneca in The Hague, The Netherlands, 12 February 2021 (reissued 14 March 2021). The Dutch health ministry on 14 March 2021 said it was suspending the AstraZeneca vaccine rollout, just days after pressing ahead with its use.  EPA-EFE/Sem van der Wal
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Hollendingar og Írar bættust í gær í hóp þeirra ríkja sem ætla að hætta notkun bóluefna við kórónuveirunni frá lyfjaframleiðandanum AstraZeneca. Hollenska stjórnin sagðist í gær ætla að slá öllum bólusetningum með efninu á frest í tvær vikur. 

Íslensk heilbrigðisyfirvöld, ásamt dönskum og norskum, ákváðu í síðustu viku að stöðva tímabundið bólusetningu með efni AstraZeneca. Ástæðan er að örfáar tilkynningar hafa borist um blóðtappa eftir bólusetningu með efni fyrirtækisins og tilkynningar um tvö dauðsföll í Danmörku og Austurríki.

Lyfjaframleiðandinn sjálfur tilkynnti í gærkvöld að samkvæmt rannsóknum hans bendi ekkert til aukinnar hættu á blóðtappa vegna bóluefnisins. Rannsóknin byggir á gögnum yfir rúmlega 17 milljónir bólusetta íbúa Evrópusambandsríkja og Bretlands, að sögn AFP fréttastofunnar. Evrópska lyfjastofnunin og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sögðu í síðustu viku að ekkert benti til orsakasamhengis á milli bólusetningar með efni AstraZeneca og aukinnar hættu á blóðtöppum. Breska lyfjaeftirlitið tekur undir með þeim og ráðleggur fólki að láta bólusetja sig með efninu þegar kallið kemur.