Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fá ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn í Árneshrepp

15.03.2021 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Árneshreppur fær 45 og hálfa milljón úr fjarskiptasjóði til þess að tengja ljósleiðara í sveitarfélagið. Orkubú Vestfjarða nýtir tækifærið og leggur þriggja fasa rafmagn í hreppinn í leiðinni.

Fjárúthlutunin er hluti af verkefninu Ísland ljóstengt, en í þessari úthlutun eru það þrettán sveitarfélög sem fá samanlagt um 180 milljónir króna til að ljósleiðaravæða sveitirnar sínar. Þar af fara fjörutíu og fimm komma fimm milljónir norður í Árneshrepp. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti, býst við að framkvæmdir hefjist með vorinu. Hún segir þetta langþráð, en að bíða hafi þurft eftir að sveitarfélögin sunnan við hreppinn yrðu ljóstengd fyrst. 

„Við erum nú þegar með alla vega fjóra einstaklinga hérna í sveitinni sem eru að vinna á netinu. Bæði Íslendinga og erlenda borgara sem eru sestir að hjá okkur og þetta verður allt, allt annar handleggur að geta unnið með svona góðar tengingar,“ segir hún.

Orkubú Vestfjarða mun þá sæta lagi og tengja þriggja fasa rafmagn í hreppinn í leiðinni. Skortur á þriggja fasa rafmagni hefur löngum staðið atvinnuuppbyggingu í hreppnum fyrir þrifum, en hann er fámennasta sveitarfélag landsins - með fjörutíu íbúa. Eva segir því að nú skapist tækifæri, ekki einungis til þess að stunda fjarvinnu með betri hætti, heldur líka til aukinnar uppbyggingar atvinnulífs innan hreppsins.