Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Dream Wife - So When You Gonna…

Mynd: Lucky Number / So When You Gonna…

Dream Wife - So When You Gonna…

15.03.2021 - 15:30

Höfundar

Tríóið Dream Wife var stofnað í Brighton fyrir nokkrum árum síðan sem gjörningur undir áhrifum frá kvikmyndinni Spinal Tap. Uppátækið féll svo vel í kramið að þær ákváðu að stofna alvöru hljómsveit. Þær gáfu út þröngskífur árin 2016 og 2017 og breiðskífuna Dream Wife 2018 sem fékk mikið lof gagnrýnenda. Síðasta sumar kom síðan út platan So When You Gonna… sem féll líka í kramið hjá gagnrýnendum auk þess sem hún komst á topp 20 breska breiðskífulistans.

Dream Wife er tríó sem er skipað söngkonunni Rakel Mjöll, gítarleikaranum Alice Go og bassaleikaranum Bellu Podpadec. Sveitin spilar poppað pönk og indírokk og hefur verið vel tekið af tónlistarunnendum og tónlistarblaðamönnum víða um heim.

Sveitin var stofnuð í Háskólanum í Brighton sem listgjörningur en eins og fyrr sagði þá varð hann að hljómsveit sem flutti til London eftir útskrift. Textar sveitarinnar fjalla oftar en ekki um femínisma, kynhlutverk, líkamsvirðingu og hlutgervingu sem eru þeirra hjartans mál. Því til stuðnings hefur hljómsveitin einnig gefið út hlaðvarpseríu þar sem þær tóku viðtöl við konur og kynsegin fólk í listum og hafa séð um styrktarfjáröflun fyrir góðgerðarsamtökin Stelpur rokka, Safe Gigs For Women, Gendered Alliance og Black Minds Matter.

Nýja platan, So When You Gonna…, kom út í sumar og var vel tekið af plötukaupendum og gagnrýnendum. Platan var eingöngu unninn af konum sem skipti sveitina miklu máli. Þær hafa ítrekað bent á kynjahalla í tónlistarbransanum í viðtölum. Þær fengu Mörtu Salogni (Björk, Holly Herndon, FKA Twigs) sem pródúser og mixmeistara, auk hljóðmannsins Grace Banks (David Wrench, Marika Hackman) og um masteringu sá Heba Kadry (Princess Nokia, Alex G, Beach House).

Plata Dream Wife, So When You Gonna…, er plata vikunnar að þessu sinni á Rás 2 og verður spiluð ásamt kynningum Rakelar Mjallar í heild sinni eftir 10-fréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Lucky Number - So When You Gonna…
Dream Wife - So When You Gonna…