Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Býst við svörum frá Lyfjastofnun Evrópu á fimmtudaginn

15.03.2021 - 15:58
Erlent · Innlent · Bóluefni · COVID-19
FILE - This July 18, 2020, file photo, shows the AstraZeneca offices in Cambridge, England. AstraZeneca announced Monday, Aug. 31, its vaccine candidate has entered the final testing stage in the U.S. The company said the study will involve up to 30,000 adults from various racial, ethnic and geographic groups. (AP Photo/Alastair Grant, File)
 Mynd: AP
Forstjóri Lyfjastofnunar býst við að niðurstöður um mögulegar aukaverkanir bóluefnis AstraZeneca liggi fyrir á fimmtudaginn. Hún gerir ekki ráð fyrir að bólusetning með efninu hefjist aftur í þessari viku hér á landi.

Á annan tug ríkja hafa nú gert hlé á bólusetningu með efni lyfjafyrirtækisins AstraZeneca vegna tilkynninga um að fólk hafi fengið blóðtappa skömmu eftir bólusetningu. Þýskaland varð síðdegis áttunda ríkið til að fresta bólusetningu alfarið en ýmis ríki hafa hætt að nota AstraZeneca-efni með ákveðnum lotunúmerum. Hópur á vegum Lyfjastofnunar Evrópu hefur málið til rannsóknar.

„Það er gert ráð fyrir að þessi hópur skili einhverju frá sér á fimmtudaginn. Þá verðum við með skýrari mynd,“ segir Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar. Hún segir að það sé síðan heilbrigðisyfirvalda í hverju landi fyrir sig að meta framhaldið. Hún gerir ekki ráð fyrir að bólusetning með efni AstraZeneca hefjist aftur í þessari viku. „Það koma örugglega upplýsingar um það fljótlega,“ segir Rúna.

Rúna bendir á að fleiri skammtar hafi borist af bóluefni Pfizer en gert var ráð fyrir og að bóluefni Janssen sé komið með markaðsleyfi hér á landi. Þó þurfi þeir sem eiga eftir að fá seinni skammt bóluefnis, og fengu efni AstraZeneca í fyrsta skammti, að fá það aftur.

„Það er ekki svissað á milli en ég ítreka það að það er ekkert sem bendir til þess að það séu tengsl þarna á milli. Það er bara mjög mikilvægt að ganga úr skugga um það af því að þetta voru frekar óvænt tilfelli,“ segir Rúna.