Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vilja nýta hitann sem streymir frá gagnaverinu

14.03.2021 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
30.000 fermetra gróðurhús gæti risið við gagnaverið á Blönduósi þar sem heitur útblástur úr verinu yrði nýttur til ylræktar. Þetta er hluti af verkefni þar sem kannaðir eru möguleikar á að skapa verðmæti úr afgangsvarma frá fyrirtækjum á Norðurlandi vestra.

Í tæpt ár hafa Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, í samstarfi við ýmsar stofnanir og ráðgjafa innanlands og utan, safnað upplýsingum um hvar í landshlutanum sé að finna svokallaðan glatvarma. Það er ónýttur varmi eða orka sem streymir frá fyrirtækjum og hægt væri að nýta með einhverjum hætti.

Allt að 40 gráðu heitt loft streymir frá gagnaverinu

Með sex milljóna króna styrk frá umhverfisráðuneytinu er nú hafið sérstakt verkefni um að nýta varmann sem streymir frá gagnaverinu á Blönduósi allan sólarhringinn. „Hérna streymir upp loft, svona c.a. 37-40 gráðu heitt loft, sem bara hitar andrúmsloftið,“ segir Magnús Jónsson, verkefnisstjóri fjárfestinga hjá SSNV. Í fyrstu þurfi að mæla nákvæmlega þá orku sem hægt væri að nýta. „Það er hitastig, rakastig, loftfæði, upp á að geta séð á hinum mismunandi árstíðum hvernig varminn hagar sér.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Mikill hiti streymir frá gagnaverinu

Vilja nýta varmann til ylræktar á matvælum

Hugmyndin er að nýta varmann til ylræktar á matvælum í gróðurhúsi sem byggt yrði sem næst gagnaverinu. „Já, það er í rauninni kannski nærtækasta dæmið, það er að tengja bara loftið á milli. Þá þarf þetta að vera mjög nálægt,“ segir Magnús. „Það er verið að áætla að það geti allt að 20-30 þúsund fermetra gróðurhús risið hér. Það er að segja að gagnaverið gæti hugsanlega hitað svo stórt rými. En okkar vonir standa til að kannski eftir svona 2-3 ár þá liggi það bara fyrir hvað við getum gert og hversu umhverfisvænt það er.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV