Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Viðbrögð fólks í Grindavík við stóra skjálftanum í dag

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Myndarammar brotnuðu, eldhúseyjur féllu á hliðina og sprungur mynduðust í gólfi í Grindavík við stóra skjálftann í dag. Fólki í bænum var brugðið. Í spilaranum má sjá skemmdir á innbúi og viðbrögð fólks við stóra skjálftanum í Grindavík í dag.

„Það var eftir skjálftana síðasta vetur þá var svona pínu lína. Svo núna þá gliðnaði hún alveg svakalega. Þetta er töluverð skemmd,“ segir Snædís Ósk Guðjónsdóttir, Grindvíkingur.

Snædís og fjölskyldan voru heima þegar skjálftinn reið yfir um klukkan tvö í dag. „Það voru bara allir skelfingu losnir. Það hristist allt, það voru mikil læti því það var allstaðar eitthvað að hrynja niður. Strákurinn okkar sem var á brókinni, dreif sig í föt og setti föt i bakpoka og sagði ég vil fara núna. Þannig ég er búin að vera að reyna að róa hann niður að við getum verið heima. En svo er alltaf verið að segja við okkur að húsin þoli þetta mikla skjálfta upp á sex komma fimm. Hvað hvað þola þau þetta lengi? Í hvað marga daga? Að vera að fá fjóra og fimm á hverjum einasta degi í þetta langan tíma.“