Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þrjátíu ár frá frelsun sexmenninganna frá Birmingham

Mynd með færslu
 Mynd: Úr safni - RÚV
Í dag eru þrjátíu ár liðin frá því að sexmenningarnir svokölluðu frá Birmingham voru látnir lausir úr bresku fangelsi. Þeir voru dæmdir saklausir til lífstíðarfangavistar fyrir hryðjuverk árið 1975.

Norður-Írarnir Hugh Callaghan, Patrick Joseph Hill, Gerard Hunter, Richard McIlkenny, William Power og John Walker voru ákærðir og dæmdir fyrir að hafa staðið að sprengjutilræðum á tveimur krám í Birmingham.

Tilræðin voru framin í nóvember árið 1974 og urðu tuttugu og einu að fjörtjóni og særði 182, sum mjög alvarlega. 

Mennirnir  voru taldir hafa tengsl við Írska lýðveldisherinn, hryðjuverkasamtök sem frömdu fjölda ódæðisverka til að koma kröfu sinni um sameinað Írland á framfæri. 

Hver og einn þeirra játaði sök og hlaut margfaldan lífstíðardóm í ágúst 1975 fyrir þetta mesta hryðjuverk og fjöldamorð í Bretlandi frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Sexmenningarnir hófu þegar að berjast fyrir því að verða látnir lausir enda hefðu þeir verið beittir harðræði af hálfu lögreglu við að ná fram játningum en var meinað um áfrýjun í mars 1976. 

Ýmsir fjölmiðlar í Bretlandi sýndu máli þeirra mikinn áhuga og tíu árum eftir sakfellinguna sýndi sjónvarpsstöðin Granada fréttaskýringaþátt þar sem réttmæti hennar var dregin stórlega í efa.

Æðsti dómstóll Bretlands staðfesti árið 1988 að dómurinn hefði byggst á réttlæti og rökum.  Í kjölfarið héldu fjölmiðlar þó uppteknum hætti við að draga niðurstöðuna í efa og fjöldi fólks barðist fyrir því að sexmenningarnir yrðu látnir lausir.

Mál þeirra var að lokum tekið fyrir árið 1991 og niðurstaðan varð sú að lögregla hefði búið til sannanir og hagrætt málum til að ná fram sakfellingu. 

Meðal þeirra sem báru vitni var Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur sem rannsakaði játningar mannanna.

Sexmenningarnir frá Birmingham voru látnir lausir 14. mars 1991 en tíu ár liðu uns breska ríkið greiddi þeim bætur sem námu á bilinu 840 þúsund pundum til 1,2 milljóna.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV