Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þingmenn segja forsendur fyrir nýju Breiðafjarðarskipi

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Hólm - RÚV
Tveir þingmenn Miðflokksins segja allar forsendur ættu að vera til þess að nýtt skip verði tekið að sigla um Breiðafjörð árið 2022 eða fyrr. Þeir kveða jafnframt einsýnt að Vegagerðin sjái til þess að gamli Herjólfur hefji nú þegar siglingar yfir Breiðafjörð, á meðan Baldur er í viðgerð og mögulega eitthvað áfram.

Þetta kemur fram í aðsendri grein þeirra Bergþórs Ólasonar, formanns umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og Sigurðar Páls Jónssonar, fulltrúa í atvinnuveganefnd Alþingis á vef Bæjarins besta á Ísafirði.

Þeir telja að hefja þurfi vinnu við langtímastefnumörkun varðandi siglingar um Breiðafjörð. Klettsháls sé farartálmi sem bættir vegir um Gufudalssveit leysi ekki.

Sú mikla atvinnuuppbygging sem nú sé í gangi á Vestfjörðum geri einsýnt að nýtt skip geti þjónað á Breiðafirði árið 2022 eftir að núverandi þjónustusamningur vegna Baldurs rennur út, eða fyrr. 

Þeir segja að það sem þeir fullyrða að sé smávægileg aðlögun á römpum beggja vegna fjarðarins sé smáatriði. Þingmennirnir segja ekki eftir neinu að bíða enda sé búið að ramma kostnaðarskiptingu Vegagerðarinnar og þjónustuaðila inn í samning.