Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skrásetur niðandi hljóðmyndir Íslands

Mynd: kaska paluch / noisefromiceland.com

Skrásetur niðandi hljóðmyndir Íslands

14.03.2021 - 11:27

Höfundar

Hvernig hljómar Ísland? Það er spurningin sem drífur pólska tónlistar-þjóðfræðinginn Kaśka Paluch áfram, en hún safnar um þessar mundir hljóðum frá Íslandi og gerir aðgengileg á gagnvirku landakorti á vefsíðunni Noise from Iceland.

Kaśka hefur búið á Íslandi í tæp fjögur ár, fyrst starfaði hún sem leiðsögumaður (allt þar til heimsfaraldurinn skall á) en nú vinnur hún í Mixtúru, margmiðlunarveri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Kveikjan að verkefninu er margþætt. Hún segist upphaflega hafa ætlað að reyna að skrifa bók um hljóm landsins eins og hann birtist í íslenskri tónlist, en hún hafði heillast af landinu í gegnum tónlist Bjarkar, Sigur Rósar og Kiasmos. Smám saman þróaðist verkefnið hins vegar yfir í vettvangsupptökur af sjálfu landinu sem Kaśka hefur unnið að undanfarið ár.

Hverfandi hljóðheimur

Þegar við hugsum um náttúru Íslands þá eigum við til að einbeita okkur að hinu sjónræna en tökum ekki alltaf eftir hljóðunum í kringum okkur. Hún rifjar upp að þegar hún starfaði sem leiðsögumaður hitti hún sjónskertan ferðalang sem naut ferðalagsins ekki síður en aðrir túristarnir - það er hægt að upplifa stað á mun fjölbreyttari hátt en bara í gegnum augun.

Skrásetning íslenskra náttúruhljóða er enn fremur mikilvæg í ljósi breytinga á vistkerfinu. „Kannski munu jöklarnir til dæmis hljóma allt öðruvísi eftir nokkur ár,“ segir hún.

Svæfingar, forritun og sorgarúrvinnsla

Viðbrögðin við verkefninu hafa verið mun meiri en Kaśka bjóst við. Hún fékk til dæmis tölvupóst frá konu sem hafði ferðast til Íslands fyrir nokkrum árum eftir að systir hennar lést. Hún sagði henni að nú væri hún að hlusta á hljóðin á síðunni og fyndist það hjálpa að úrvinnslu á sorginni. „Ég hefði ekki getað ímyndað mér að upptökurnar myndu nýtast fólki á þennan hátt,“ segir Kaśka , en hún segist einnig hafa fengið skilaboð frá fólki í Kosta Ríka, forriturum í Berlín sem nota upptökurnar til að ná betri einbeitingu í vinnunni, frá fólki sem svæfir börnin sín með íslenskum náttúruhljóðum, og svo frá fólki sem vonast til að geta heimsótt Ísland að heimsfaraldri loknum en láti sér nægja að ferðast þangað með eyrunum að sinni.

Kaśka hefur nýlega komið upp hópfjármögnunarsíðu á Patreon, þar sem fólk getur stutt framgang verkefnisins mánaðarlega. Þá er meira á döfinni, einn daginn stefnir hún á útgáfu geisladisks og í samstarfi við pólskan ljósmyndara vinnur hún nú að heimildamynd um verkefnið og hljóðmynd Íslands.

https://noisefromiceland.com

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Hljóðmengun mest þar sem hraðinn er mestur

Menningarefni

Hljóðminjar eru þjóðminjar