Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir skjálftahrinuna á Reykjanesskaga fordæmalausa

Mynd: RUV / RUV
Jarðskjálftinn í dag, sem var af stærðinni 5,4, er afleiðing af þeim umbrotum sem eiga sér stað við kvikuganginn við Fagradalsfjall. Þetta segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár Veðurstofu Íslands. Hrinan sem hófst 24. febrúar er fordæmalaus og vísindamenn hafa ekkert sambærilegt að miða við á þessu svæði.

Skjálftinn í dag var sá næst stærsti síðan skjálftahrinan hófst fyrir átján dögum. Íbúar Grindavíkur hafa fundið einna mest fyrir hrinunni. Þar hefur jörð skolfið upp á hvern einasta dag og íbúar orðnir langþreyttir enda varla svefnsamt sumar nætur.

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár Veðurstofu Íslands, sagði í kvöldfréttum RÚV að skjálftinn hefði fundist víða. Skjálftar sem yrðu vestan við Fagradalsfjall væru afleiðing af þeim umbrotum sem ættu sér stað við kvikuganginn.  „Við höfum kallað þetta gikk-skjálfta. Kvikugangurinn er að ýta á stórt svæði, það verða spennubreytingar og við þessa þrýstingsaukningu verða jarðskjálftar á stóru svæði.“

Út frá GPS-mælingum sést að þrýstingur er að byggjast upp í kvikuganginum. „Og á meðan þetta er svona eru talsverðar líkur á gosi en við höfum engan tímaramma. Við verðum bara að bíða og sjá.“

Kristín segir þetta fordæmalausa hrinu og þau hafi ekkert sambærilegt að miða við á þessu svæði „Við höfum séð að kvikugangurinn er að færast örlítið suður á boginn en ég á ekki von á því að hann gangi út í sjó.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV