Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Óttast að ofsóknaróður sonur sinn muni skaða aðra

Mynd: RÚV / Zoom
Móðir manns sem hefur verið í mikilli neyslu í 20 ár óttast að hann eigi eftir að skaða aðra. Hann sé haldinn ofsóknaræði og gangi um með hníf. Öll hugsanleg úrræði hafi verið reynd, án árangurs. Móðir hans kallar á hjálp, en segir að það sé syni sínum ekki til góðs að lengja líf hans eins og það er núna.

Kristín Helgadóttir birti á miðvikudaginn færslu á Facebook sem óhætt er að segja að hafi vakið mikla athygli. Þar lýsir hún þrautagöngu fjölskyldu sinnar, vegna 37 ára gamals sonar hennar sem hefur barist við fíkniefnadjöfulinn í 20 ár. Sú langvarandi neysla hefur leitt til ítrekaðra geðrofa, ofsóknaræðis og ranghugmynda. Maðurinn hefur lengi verið heimilislaus og fær ekki lengur inni í gistiskýlinu sökum ástands síns. 

Ekki raunveruleikatengdur

Sonur Kristínar greindist með mikinn athyglisbrest á unglingsárum og þegar hann var 18 ára byrjaði hann að nota fíkniefni. Á þessum 20 árum hefur nokkurn veginn allt verið reynt, en án árangurs. Fjölskyldan hefur aldrei talað um málið opinberlega en ákvað nú að kalla á hjálp.

„Hann er orðinn þannig að hann er ekki raunveruleikatengdur. Það eru bara raddir sem eru þarna. Það eru fleiri með honum í liði eins og ég segi stundum. Og staðan er bara mjög alvarleg. Við höfum fundið það ár frá ári að hægt og bítandi hrakar honum meira og meira. Hann missir tenginguna,“ segir Kristín.

Mynd: RÚV / Zoom
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Kristínu.

Foreldrar mannsins búa á Norðurlandi en hann sjálfur í Reykjavík. Þau ná því stundum ekki sambandi við hann dögum eða vikum saman. Kristín segir að fíkniefnaneyslan sé fyrir löngu farin úr böndunum og sonur hennar sé gríðarlega illa á sig kominn, bæði líkamlega og andlega.

„Ég veit bara að hann er að nota allan fjandann, ef ég má orða það sem svo. Hann er í amfetamíninu, hann er í morfíninu, hann hefur verið að kaupa sér efni þar sem hann hefur orðið mjög veikur, verið kominn með einkenni nýrnabilunar. Hann verður ofboðslega veikur og er oft hræddur um að hann muni ekki hafa það af. En staða hans er þannig að honum helst hvorki á síma né öðru og það eina sem hann hugsar um er að eiga fyrir skammti morgundagsins.“

Á meðal þess sem hefur verið reynt er að koma honum í meðferð á geðdeild Landspítalans. Síðast þegar þau áttu tíma keyrði Kristín son sinn á staðinn.

„Um leið og ég hægði á bílnum þá henti hann sér út úr bílnum. Og það gerði hann áður. Greip í stýrið. Henti sér út, bara á Hringbrautinni,“ segir hún.

Eitt sinn tókst þeim þó að koma honum inn á geðdeild.

„Og þá er bara ákveðið að hann fari ekki í framhaldsmeðferð af því að hann sé í geðrofi af neyslunni. Í grunninn sé hann ekki svona geðveikur.“

Liggjandi á Glerártorgi

Kristín býr á Húsavík, en barnsfaðir hennar býr á Akureyri. Sonur þeirra dúkkaði upp á Akureyri aðfaranótt mánudagsins síðstliðinn, en gat ekki svarað því hvernig hann komst þangað eða af hverju. Hann gisti á lögreglustöðinni, en þegar móðir hans ætlaði að hitta hann þar var hann farinn.

„Ég er rétt farin út úr dyrunum þegar mér er bent á að það sé maður liggjandi, sofandi, inni á Glerártorgi. Svo ég keyri þangað og þá er hann þar. Ekki sofandi, en hann gat hvorki staðið eða setið, var að reyna að næra sig. Og ég kveikti hjá honum von, að við skyldum fara inn á geðdeild á Akureyri, og fá aðstoð þar. Og aldrei þessu vant sagði hann já og ég ákvað að við ættum að taka sénsinn á því.“

Þau leituðu aðstoðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri en þar fengu þau aðeins töflur til að slá á fráhvarseinkennin.

„Ég var hins vegar, í nóvember og janúar, þegar ég kom suður, að freista þess að svipta hann sjálfræði,“ segir Kristín. „Eigum við ekki að koma honum í skjól þannig að við eigum einhvern séns áður en hann deyr? Hann er orðinn grindhoraður, það eru skemmdir á höndum sem hann gerir sér ekki grein fyrir hvaðan eru, úlnliður með sárum, hann vissi ekki hvort þau væru eftir handjárn, hann hefur kannski streist á móti, skemmdir á fingri sem er bara langt inn í fingur, og hann veit ekkert hvað er að gerast annað en að honum líður illa. Hann er með ljót sár og hann vildi sýna mér hvernig hann liti út innan undir Kraft-gallanum. Og þá hugsaði ég bara að þetta væri komið svo langt út fyrir öll mörk. Ef það væri einhver manneskja sem væri líkamlega veik og væri svona á sig komin, þá væri brugðist við. En vissulega með vilja manneskjunnar. En hann er ekki þar.“

Draga línuna

Sonur Kristínar er að hennar sögn haldinn ofsóknarbrjálæði á háu stigi. Hann gangi oft um með hníf og sé því í raun hættulegur.

„Hann er í mikilli hættu, hann er orðinn mjög veikur þó að við höfum margt séð á þessum 20 árum, og við óttumst eiginlega mest að hann valdi öðrum skaða. Og það er bara þar sem við drögum línuna. Fyrst ég get ekki svipt hann sjálfræði og komið honum í skjól, af því að hann sjálfur vill ekkert, hvað með fólkið úti? Það er þetta sem setur línuna hjá okkur; er hægt að bjarga honum og öðrum í leiðinni, frá því að það verði skelfilegur skaði?“

Kristín segir að fjölskyldan sé orðin ráðalaus, þau hafi reynt allt.

„Er einhver þarna sem við vitum ekki um, sem við höfum ekki leitað til, sem getur bent okkur á hvernig við hjálpum þeim sem vill ekki hjálpina, en vill samt lifa?“ spyr Kristín.

„Hann þarf að fara í langtímameðferð. Þetta er maður sem mun ekki ná áttum, fyrr en hann er kominn í langtímaúrræði. Við munum standa að baki honum, við firrum okkur ekki ábyrgð að vera hans fjölskylda. Það eru allir boðnir og búnir. En við getum ekki framkvæmt það að hann komist í skjól þar sem hann er öruggur, þar sem hann er nærður, þar sem hann á möguleika á að verða aftur hann sjálfur og dafna og vonandi koma heill út í samfélagið. Vegna þess að hann hefur mikið að gefa, hann hefur mikið að bjóða, en hann er ekki í stakk búinn til þess að láta ljós sitt skína og gefa sitt til samfélagsins nema ógn og ótta.“

„Það er ekki honum til góðs“

Aðspurð segir Kristín að hún óttist ekki að missa son sinn.

„Veistu það, við erum hætt að óttast. Við erum hætt að halda að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru, eða að þeir verði betri. Ég óttast að hann geri öðrum illt. Ég óttast ekki dauðann, við vitum að það kemur að honum. En hann færist nær og hraðar en mig óraði fyrir og hann óraði fyrir. Og hér er fjölskyldan í sjálfu sér fyrir löngu búin að nýta þær fáu gleðistundir sem við eigum með honum í nærveru í að safna í minningabankann, af því að við vitum að það er það sem við höfum. En við óttumst í sjálfu sér ekki dauðann.“

Eina lausnin sé einhvers konar langtímaúrræði, og best ef hægt væri að svipta hann sjálfræði.

„Þarf eitthvað frekar vitnanna við? Þurfum við að sjá til aðeins lengur? Þurfum við að bíða? Eftir hverju ætlum við að bíða? Við bíðum ekki. Við í sjálfu sér höldum bara hópinn hérna, styrkjum hvert annað, og við vonum að það sé eitthvað til staðar þarna úti, í okkar þó að mörgu leyti góða samfélagi, sem geti kippt því þannig í liðinni að hann eigi hugsanlega möguleika á lengra lífi. Og betra lífi. Við þurfum ekki að lengja það eins og það er núna. Nei. Það er ekki honum til góðs,“ segir Kristín.