Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Náðu einstökum myndum af grjóthruni eftir skjálftann

14.03.2021 - 20:29
„Ég fann vel fyrir fyrstu bylgjunni, hún felldi mig næstum um koll,“ segir Amy Clifton, doktor í jarðfræði, en hún og samferðarmaður hennar Fredrik Holm birtu mögnuð myndskeið á You Tube - síðu sinni í kvöld. Þau voru að keyra á Suðurstrandarvegi og stoppuðu nálægt Ísólfsskála til að taka þar myndir. „Þetta var algjörlega einstakt,“ útskýrir Amy eins og myndskeiðin bera með sér sem er tekið skömmu eftir stóra skjálftann í dag.

Skjálftinn var af stærðinni 5,4 og sá næst stærsti í skjálftahrinunni sem hófst fyrir 18 dögum. 

Grjótið sem sést rúlla niður úr hlíðunum eru engir smáhnullungar og það heyrist að Amy stendur ekki alveg á sama. „Við fórum samt mjög varlega og pössuðum okkur að fara ekki of nálægt.“

Þótt Amy sé komin á eftirlaun fylgist hún grannt með framvindu mála á Reykjanesskaga. Enda hefur hún skrifað lærðar greinar um svæðið og hlaut meðal annars styrk frá Orkuveitu Reykjavíkur til að skrifa um samspil misgengja og gossprungna á Reykjanesskaga. „Ef bara þetta hefði gerst fyrir fimmtán árum,“ segir hún.

Myndskeið Amy er hægt að sjá hér að neðan. Myndskeiðið í spilaranum að ofan er tekið af Frederik Holm, sem sýnir vel hversu miklir kraftar losnuðu þarna úr læðingi. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV