Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Leggja til að Vestfirðingum verði lánaður Herjólfur

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Vestmanneyingar skora á bæjaryfirvöld og ríkið að lána Vestfirðingum nýja Herjólf meðan Breiðafjarðarferjan Baldur er biluð. Vél ferjunnar bilaði í aukaferð yfir Breiðafjörð á fimmtudaginn. Baldur er aðeins búinn einni aðalvél sem ekki tókst að koma í gang.

Vestmannaeyingarnir telja að gamli Herjólfur risti of djúpt fyrir Breiðafjörð og sé of breiður fyrir bryggjur í Stykkishólmi og Brjánslæk, því henti sá nýi betur.

Meðal þeirra sem hafa lagt þetta til er Alfreð Alfreðsson leiðsögumaður í aðsendri grein á vefsíðunni Eyjar.net. Þar segir Alfreð að Vestmanneyingar hafi oft fengið Baldur að láni þegar Herjólfur hefur verið í skoðun.

Útséð sé með að Baldur sigli á næstu vikum og því eigi fyrirtæki á Vestfjörðum undir högg að sækja. Alfreð vitnar í tillögu þessa efnis frá Tryggva Sigurðssyni sem heldur úti Facebook-síðu um gamla vélbáta í Vestmannaeyjum.

Almennt hafi Vestmannaeyingar tekið vel í hugmyndina. Alfreð segir ekkert því til fyrirstöðu að Herjólfur III geti haldið upp siglingum um Landeyjahöfn, enda sé hún með besta móti.

„Ég leyfi mér að skora á bæjaryfirvöld og ríkið að bregðast skjótt við og lána Vestfirðingum Herjólf svo siglingar um Breiðafjörð verði með eðlilegum hætti þangað til Baldur kemur tvíefldur aftur,“ segir Alfreð. 

Meira en að segja það að flytja ferju

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir í samtali við fréttastofu að málið sé fyrst og fremst vera á forræði Vegagerðarinnar. Forstjóri hennar, Bergþóra Þorkelsdóttir segir þetta fallega hugsun en það sé nokkurt mál að flytja ferjur milli hafna. 

„Þær þurfa að passa við höfnina og hafnarmannvirkin það ekki eitthvað sem maður hoppar í milli fjögur og fimm einn daginn. Við munum bara skoða það. Nú vonum við að við náum að gera við Baldur hratt og vel og skoða þau mál svo áfram. Mér finnst þetta bara áhugavert.“ 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði í samtali við fréttastofu í gær að þær hugmyndir hefðu komið upp að nýta Herjólf þriðja á Breiðafirði en örðugt væri að leggja hann að bryggju beggja vegna fjarðar. 

Fréttin var uppfærð klukkan 14:04