Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Hvað er hægt að þola svona ástand lengi?“

14.03.2021 - 20:52
Mynd: EPA-EFE / EPA
Sýrlandsstríðið er hörmungarsaga sem sýnir enn á ný hversu langt valdahafar eru tilbúnir að ganga, segir Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í Mið-Austurlandafræði. Eftir heilan áratug af stríðsátökunum sé Sýrland ekki lengur sama land.

„Það er kannski komin upp hálfgerð pattstaða þannig að það er ekki beint allsherjarstríð og ekki kannski eins dramatískt og var fyrir fjórum, fimm árum síðan,“ segir Magnús Þorkell um stöðuna í Sýrlandi í dag. Í hverri einustu viku sé mannfall og fólk sem neyðist til að flýja. „Þessi átök eru sérstök að því leytinu til að þetta er ekki svart-hvít staða. Þetta eru svo margir aðilar sem eru að berjast, sem eru með mjög ólíka hagsmuni.“

Hér má hlýða á lengra viðtal við Magnús Þorkel. 

Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir / RÚV
Magnús Þorkell er prófessor við William College í Bandaríkjunum.

Það sem hófst sem borgarastríð, Sýrlandsher gegn sínum eigin borgurum, hafi þróast út í leppstríð og átök um yfirráð og völd í þessum heimshluta. „Hún er svo viðkvæm staðan og það er svo erfitt að sjá hvað gerist næst. En ef maður skoðar þróunina þá er þróunin sú að Sýrlandsstjórn stendur með pálmann í höndunum en það er spurning hvers konar pálmi er þetta og hverskonar sigur er þetta?“

Sýrlenski herinn virði allar stríðsreglur að vettugi

Sýrland er ekki lengur sama land. Áratugur af hörmungum hafi mikil og djúpstæð áhrif. „Sérstaklega stríðs 21. aldar. Þar sem um er að ræða eiturefni og þar sem sýrlenski herinn og bandamenn þeirra hafa virt að vettugi algjörlega helstu hugmyndir okkar hvernig á að heyja stríð, löglegt stríð,“ segir Magnús Þorkell. „Mannfallið er þvílíkt. Hvernig sem við mælum það. Hvort um er að ræða í mannfjölda beint eða samkvæmt höfðatölu. Þetta er hörmungarsaga sem við erum að upplifa sem sýnir enn á ný hvernig þeir sem hafa völdin telja sig hafa algjört vald og hvað þeir eru tilbúnir að fara langt.“

Daglegt líf í Sýrlandi er ekkert í líkingu við það sem var áður. Hálf þjóðin hefur þurft að flýja heimili sín, efnahagurinn er í rúst og gjaldmiðillinn í frjálsu falli. „Það er á nokkrum stöðum í þéttbýli eins og í Damaskus þar sem lífið er nokkurn veginn að komast aftur í eðlilegt horf. En í stórum hluta landsins líkist það nánast helvíti. Það er svo mikillar uppbyggingar þörf, fólk er á vergangi og eyðileggingin er svo mikil. Þetta eru núna 10 ár. Hvað er hægt að þola svona ástand lengi sem einstaklingur? Bæði á líkama og sál, þetta er alveg skelfilegt.“