Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gervigreind verði beitt við lækningu á mænuskaða

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Auður Guðjónsdóttir stjórnarformaður Mænuskaðastofnunar Íslands leggur til að taugakerfinu verði gert hátt undir höfði í gervigreindarstefnu Íslands. Fjórar umsagnir hafa borist inn á samráðsgátt stjórnvalda vegna spurninga nefndar um stefnuna. Umsagnarfrestur rennur út á morgun 15. mars.

Í umsögn Auðar kemur fram að mænuskaði sé flokkaður með öðrum þeim sjúkdómum og skaða á Norðurlöndum sem þarfnist hátæknimeðferðar.

Íslensk stjórnvöld hafi ásamt Mænuskaðastofnuninni vakið athygli viðeigandi alþjóðastofnana á nauðsyn þess að hrinda af stað alþjóðlegu átaki í þágu lækninga á mænuskaða og annarra meina í taugakerfinu.

Vegna þess hafi Ráðherranefnd Norðurlandaráðs gert mænuskaða að forgangsmáli. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi vakið athygli Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna á því að María Mjöll Jónsdóttir og samstarfsfólk hennar í fastanefnd Íslands hafi orðið til þess að koma taugaröskunum inn í stefnuyfirlýsingu SÞ fyrir árin 2015 til 2030.

Ráðherrann hafi sömuleiðis rætt við Tetros Ghebreyesus framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að lækning á mænuskaða og á öðrum meinum í taugakerfinu yrðu sérstaklega tekin fyrir hjá stofnuninni.

Gervigreind var sérstaklega rædd í því sambandi. Með þessu segir Auður að hvatt hafi verið til að horft verði til lækningar á lömun en ekki einungis til forvarna og endurhæfingar.

„Það yrði því ómetanlegt fyrir áframhald þeirrar vinnu ef Ísland gerði taugakerfinu hátt undir höfði í gervigreindarstefnu sinni og legði í framhaldinu út í það stórvirki að nýta gervigreind til að greina og samkeyra gagnabanka á alþjóðlegu taugavísindasviði.“