Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bandaríkin ná ekki sambandi við Norður-Kóreu

14.03.2021 - 02:10
epa07495547 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) shows North Korean leader Kim Jong-un presiding over an enlarged meeting of the Political Bureau of the Central Committee of the Workers' Party of Korea (WPK), at the office building of the Central Committee of the WPK in Pyongyang, North Korea, 09 April 2019 (issued 10 April 2019).  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Mynd: EPA-EFE - KCNA
Bandaríkjastjórn hefur ítrekað reynt að ná sambandi við norðurkóresk stjórnvöld síðan um miðjan febrúar. Tilraunirnar hafa hingað til verið árangurslausar samkvæmt heimildum fréttastofu Reuters.

Heimildamaður Reuters, sem sagður er hátt settur í stjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta, greindi ekki frá því hvaða leiðir hafi verið notaðar til að ná sambandi við stjórnvöld í Pyongyang. Þær hafi þó verið nokkrar, meðal annars í gegnum diplómata Sameinuðu þjóðanna í New York. Ekkert svar hefur borist frá Norður-Kóreu hingað til að hans sögn.

Núverandi Bandaríkjastjórn hefur lítið viljað gefa upp um hvernig hún ætli að nálgast Norður-Kóreu. Vaxandi áhyggjur eru meðal nágranna þeirra í suðri vegna kjarnorkutilrauna norðan landamæranna. Talið er að kjarnavopnabúr Norður-Kóreu verði meðal þess helsta sem beri á góma þegar varnarmálaráðherra Bandaríkjanna fer í opinbera heimsókn til Suður-Kóreu og Japans í næstu viku.

Rúmt ár frá síðasta samtali

Heimildamaður Reuters segir flest benda til þess að meira en ár sé síðan bandarískir og norðurkóreskir diplómatar ræddu síðast saman. Forveri Bidens, Donald Trump, reyndi að ná sáttum við Norður-Kóreu og hélt tvær ráðstefnum með Kim Jong-Un, leiðtoga ríkisins. Eftir undirritun sáttmála á fyrri ráðstefnunni slitnaði upp úr viðræðum á þeirri seinni, þar sem Kim yfirgaf ráðstefnuna áður en henni lauk. 

Þrátt fyrir harðar viðskiptaþvinganir hefur stjórnvöldum í Norður-Kóreu tekist að halda kjarnorkutilraunum sínum áfram. Samkvæmt skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum eru þær fjármagnaðar með þjófnaði tölvuþrjóta, sem hafa náð að safna um 300 milljónum dollara með tölvuárásum. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur viðrað þá hugmynd að beita Norður-Kóreu enn harðari viðskiptaþvingunum, í samráði við bandaþjóðir, til þess að þrýsta á kjarna-afvopnun ríkisins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV